Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Sjálfsagt að ríkið kaupi lögleg leynigögn

27.09.2014 - 21:12
Mynd með færslu
 Mynd:
Ríkið getur ekki annað en skoðað það alvarlega, að kaupa upplýsingar um möguleg skattsvik Íslendinga erlendis. Þetta er mat formanns efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis. Það flæki þó málið ef upplýsingarnar eru fengnar með ólögmætum hætti.

Embætti skattrannsóknarstjóra hefur fengið send sýnishorn af gögnum með nöfnum Íslendinga sem tengjast skattaskjólum. Gögnin benda til þess að hundruð Íslendinga hafi gerst sekir um skattaundanskot í skattaskjólum. Skattrannsóknarstjóri sagði í fréttum í gær að gögnin gefi færi á að rekja slík undanskot. Embættið fékk gögnin send að utan, frá aðila sem vill selja þau. Það er nú til athugunar hjá fjármálaráðuneytinu, hvort kaupa eigi gögnin. Frosti Sigurjónsson, formaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis, segir að til greina komi að kaupa þau.

„Ef það er líka rétt sem ég hef heyrt að Þjóðverjar hafi farið þessa leið, að kaupa slíkar upplýsingar, þá finnst mér ekki annað hægt en að við skoðum þetta af alvöru að afla upplýsinga með þessum hætti líka.“

-En ef upplýsingarnar eru fengnar með ólögmætum hætti?

„Nú veit ég ekkert um það, hvort svo er eða hvort þessar upplýsingar sem Þjóðverjar hafa nálgast eru fengnar með ólögmætum hætti. Það vantar upplýsingar um þetta. En það flækir málið eflaust.“

Hann segir ekkert því til fyrirstöðu að kaupa gögnin séu þau fengin með lögmætum hætti.