Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Sjálfsafgreiðsla yrði viðbót hjá Högum

21.11.2017 - 09:44
Mynd: Óðinn Jónsson / Morgunvaktin
Ef sjálfsafgreiðsla í matvöruverslunum Haga verður tekin upp verður hún valkostur til viðbótar við hefðbundna greiðslukassa með starfsfólki, að sögn Finns Árnasonar, forstjóra Haga, sem reka meðal annars Bónus og Hagkaup.

Víða um heim hafa verið tekin upp sjálfsafgreiðslukerfi í matvöruverslunum og viðskiptavinir afgreiða sig sjálfir. Slík kerfi hafa þó ekki verið tekin upp víða hér á landi. Stóru matvöruverslanakeðjurnar skoða nú kosti og galla þess að taka upp sjálfsafgreiðslu.

Rætt var við Finn í Morgunútvarpinu á Rás 2 í morgun. Hann segir að slík sjálfsafgreiðsla muni aukast í framtíðinni.  „Við höfum skoðað þetta í mjög langan tíma. Búnaðurinn hefur verið dýr fram til þessa og sömuleiðis er aðlögun að íslenskum markaði dýr þannig að við höfum ekki farið út í þetta en við skoðum þetta stöðugt,“ segir hann.  

Slík kerfi eru víða í matvöruverslunum í London og segir Finnur það henta vel þar sem fólk er að versla lítið í einu og mikið er að gera á álagstíma. Viðskiptavinir séu til dæmis að kaupa sér samloku og drykk í hádeginu. „Þá tekur fólk fáa hluti og vill fara hratt í gegn.“ Finnur segir sjálfsafgreiðslu ekki leysa alla þætti afgreiðslu. „Ef þetta verður tekið upp hjá okkur þá yrði þetta valkostur til að minnka raðir fyrir fólk sem er að flýta sér í gegn.“

Finnur segir mismunandi eftir verslunum hvort að þjónusta á öðrum sviðum verði aukin þegar afgreiðslufólki er fækkað. Einhverjar verslanir fari þá leið en að í lágvöruverslunum sé líklegt að sparnaður verði heldur nýttur til að lækka vöruverð.

Hægt er að hlusta á viðtalið í heild sinni í spilaranum hér fyrir ofan.