Athugið þessi frétt er meira en 11 ára gömul.

Sjálfboðaliðar í hreinsunarstarfi

25.04.2010 - 11:41
Mynd með færslu
 Mynd:
Fjöldi sjálfboðaliða reynir nú að létta undir með bændum undir Eyjafjöllum. Drunur frá gosstöðvunum heyrast nú vestan við þær en ekki sunnan og austan eins og áður.

Öskufall hefur verið lítið vestur af gosstöðvunum síðan í gærkvöld. Ekki sér í eldstöðina frá Hvolsvelli en aðeins í jökulinn sem nú hefur fengið öskugráan lit. Mistrið á höfuðborgarsvæðinu og Reykjanesi er ekki öskumistur.

Drunur hafa heyrst víða alveg síðan gosið hófst. Mestar hafa þær verið undir Eyjafjöllum og þær hafa einnig heyrst langt austur, til dæmis í Álftaver. Þetta virðist hafa snúist við. Þau Hrafn Jóhannsson og Arndís Finnsdóttir búa á Hvolsvelli austast í byggðinni. Hrafn segir að þau hafi fundið fyrir gríðarlegri höggbylgju milli klukkan níu og tíu í morgun. Hún hafi verið það öflug að það hafi glamrað í glermunum í eldhúsinu. Þau hafi síðan heyrt í þrumunið frá gosstöðvunum.

Hrafn hefur líka heyrt drunur öðru hvoru í morgun. Bæði lögreglan á Hvolsvelli og Almannavarnir heyrðu af þessu í gærkvöld og telja að breytt vindátt sé skýringin.

Fimmtán hópar sjálfboðaliða, hátt í hundrað manns, eru að störfum á bæjum undir Eyjafjöllum. Skipulaginu er stýrt frá félagsheimilinu Heimalandi undir Vesturfjöllunum. Jóhanna Róbertsdóttir, svæðisfulltrúi Rauða krossins á Suðurlandi og Suðurnesjum, segir sjálfboðaliðana vera frá 4*4, frá Rauða krossinum og úr hópi sem var settur saman á Fésbókinni auk liðsmanna úr björgunarsveitunum og frá Brunavörnum Árnessýslu. Fólkið vinni að hreinsun á bæjum, fyrst og fremst hús að utan og kringum bæina. Einnig fái bændur aðstoð frá fólkinu við ýmislegt sem þeir óski eftir að fá aðstoð við.