Athugið þessi frétt er meira en 10 ára gömul.

Sjá ekki flöt á samstarfi

22.10.2011 - 12:24
Mynd með færslu
 Mynd:
Aðstandendur vefsvæðisins einkamál.is óskuðu í gær eftir samstarfi við Stígamót um að uppræta vændi á vef einkamála. Verkefnisstýra hjá Stígamótum sér ekki flöt á slíku samstarfi.

Neðanjarðarhreyfingin Stóra systir afhenti lögreglu í vikunni lista með nöfnum og upplýsingum um karla sem sagðir eru hafa sýnt áhuga á að kaupa vændi. Að sögn félaga í Stóru systur er vefsíðan einkamál.is sá vettvangur þar sem vændi þrífst hvað best hér á landi. Aðstandendur Einkamála.is sendu í gær frá sér yfirlýsingu þar sem þeir óskuðu eftir samstarfi við Stígamót við að uppræta vændi á vefsvæði sínu.

„Mér líst rosalega vel á það að einkamál.is ætli að taka skurk í vændismálum á síðunni og hreinsa út þær auglýsingar og þá notendur sem eru að falast eftir vændi. En ég veit ekki alveg hvað við á Stígamótum getum gert til að aðstoða þá í því. Það er ekkert sem við getum gert sem þeir geta ekki gert sjálfir,“ segir 

Í yfirlýsingunni sögðust aðstandendur Einkamála.is kosta til stórfé til að vinna gegn vændi með því að þróa hugbúnað og vera með starfskrafta sem vinni við að yfirfara og leita uppi vændisauglýsingar.

Steinunn sagðist hafa litið inn á vefsvæði einkamála.is í kjölfar yfirlýsingarinnar í gær. „Það tók mig innan við fimm mínútur að finna að minnsta kosti fjórar auglýsingar frá körlum sem eru að falast eftir vændi, svo ég held að þeir þurfi að gera aðeins betra átak í þessu hjá sér.“