Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Sjá ekki ávinninginn af því að greiða í sjóði

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Framkvæmdastjóri Landssamtaka lífeyrissjóða segir sjóðfélaga ekki sjá ávinninginn af að greiða í lífeyrissjóði því ríkið skerði greiðslur ellilífeyris á móti. Forstjóri Fjármáleftirlitsins segir að við endurskoðun á lífeyrislöggjöfinni þurfi meðal annars að skerpa á skilum milli fjármálastofnana og lífeyrissjóða þær reka til að koma í veg fyrir hagsmunaárekstra.

Boðar endurskoðun laga

Framtíðarsýn fyrir lífeyriskerfið var rædd á fundi sem Fjármálaeftirlitið stóð fyrir í morgun. Fjármálaráðherra sagði í framsögu sinni að í fjárlögum 2019 hafi verið boðuð heildarendurskoðun á löggjöf um lífeyrismál og að megináhersla hennar yrði að tryggja sjálfbærni lífeyriskerfisins. 

Stórir sjóðir óheppilegir fyrir samkeppnina

Gylfi Magnússon dósent í viðskiptafræði segir lífeyrissjóðina orðna það stóra að þeir eigi mjög stóran hluta af skráðum hlutabréfum innanlands og skuldabréfum: 

„Þetta getur haft óheppileg áhrif á samkeppni og stjórnun fyrirtækja og svo reyndar líka virkni verðbréfamarkaðana. Þannig að þetta er ein af svona óæskilegum afleiðingum þess að vera með kerfi sem að vex töluvert hraðar en hagkerfið og lendir þá í vandræðum með að kaupa æskilegar eignir“, sagði Gylfi.

Hætta á hagsmunaárekstrum ef aðrir sjá um rekstur sjóða

Rekstur níu lífeyrissjóða er í höndum t.d. fjármálafyrirtækja. Dæmi um þetta eru hjá Arionbanka. Skýra aðgreiningu þarf á milli segir Unnur Gunnarsdóttir forstjóri Fjármálaeftirlitsins: 

„Það þarf samt að huga að því að framkvæmdastjóri sé óháður, sé ekki undir boðvaldi inn í því fyrirtæki, sem að varslan á sér stað. Það sé sem sagt ákveðið sjálfstæði, helst stjórnirnar, framkvæmdastjórinn, jafnvel áhættustýringar, innri endurskoðun, þetta þarf allt að vera fólk sem er fyrst og fremst með loyalitet til sjóðsins sjálfs. Auðvitað er þetta gjarnan gert svona af því að það er ódýrara en við teljum að hagsmunirnir séu slíkir að það sé betra að þetta sé ekki í sömu hendi“, segir Unnur.

Fá falleinkunn

Sjóðsfélagar lífeyrissjóða gefa sjóðunum nánast falleinkunn í skoðanakönnunum sem lífeyrissjóðirnir hafa látið gera. Þórey S. Þórðardóttir framkvæmdastjóri Landssamtaka lífeyrissjóða segir megin óánægjuna beinast að samspili almannatrygginga og lífeyrissjóða. Ellilífeyrir úr almannatryggingum skerðist í hlutfalli við það hvað fólk fær greitt úr lífeyrissjóðum: 

„Fólk sér ekki ávinninginn af því að hafa lagt fyrir í lífeyrissjóð og að greiðslurnar séu í rauninni að koma frá lífeyrissjóðunum en ekki ríkinu.“

Almannatryggingakerfið er náttúrulega fyrir það sem höllustum fæti standa eða hvað?  

„Þar er nefnilega stór spurning. Upphaflega var almannatryggingakerfið eins og nafnið ber með sér, það var hugsað fyrir alla. En núna er það þannig að það virkar eins og jöfnunarkerfi og lunginn af þeim sem eru á lífeyri í dag að þeir eru nánast að fá það sama í lífeyri út af þessari tekjutengingu almannatrygginga“, segir Þórey. 

Þórdís Arnljótsdóttir
Fréttastofa RÚV