Sjá breytingar á þorskstofninum á beinum

06.12.2017 - 20:55
Beinaransóknir. Þorksbein
 Mynd: Jóhannes Jónsson - RUV.IS
Með rannsóknum á gömlum þorskbeinum er hægt að skoða áhrif sjávarhita og veiða á þorskstofninn. Líffræðingur sem hefur rannsakað beinin segir skýr merki um breytingar á þorskstofninum með auknum fiskveiðum í lok 19. aldar.

Breytingar á þorskinum þegar veiðar hófust

Beinin koma úr vestfirskum verbúðum og eru rannsóknirnar samstarfsverkefni fornleifafræðings og líffræðings. Með því að skoða efnasamsætur kolefnis og niturs í beinunum má meta stöðu þorsksins í fæðukeðjunni sem og fæðu hans sem geti varpað ljósi á ytri aðstæður. Til dæmis er hátt gildi niturs merki um háan sess í fæðukeðjunni. „Þetta er stöðugt hjá þorski í mörg hundruð ár en við sjáum mjög áberandi lækkun í gildunum í nútíma og þá er ég að tala um seinni hluta 19. aldar og fram á fyrri hluta 20. aldar.“

Stofninn minnkaði og yngdist

Guðbjörg Ásta telur fiskveiðar líklegustu skýringuna. „Bæði þá fjarlægja veiðarnar stærstu fiskana úr sjónum og hins vegar byrjuðu togveiðar á þessum tíma sem geta haft áhrif á botnríkið og fæðuvist fiskanna.“ Guðbjörg Ásta segir að fyrri rannsóknir hennar hafi jafnframt leitt í ljós áhrif veiða á stofn þorsksins á 16. og 17. öld.  „Þá minnkaði erfðabreytileiki þrosks sem bendir til að stofninn hafi minnkað og þroskurinn hefur verið yngri og yfirleitt er lækkun á meðaaldri merki um áhrif veiða.“

Mikilvægt að vita hvernig vistkerfið var

Guðbjörg Ásta bendir á að þótt veiðiaðferðir hafi verið frumstæðari áður fyrr hafi þeim ekki verið stýrt. Til dæmis var veitt á hrygningarsvæðum og engar reglur um brottkast, þá voru mjög margir á veiðum. Því séu áhrif veiða skýrari en ella. Hún segir mikils virði að fá hugmynd um vistkerfið áður en mennirnir fóru að hafa áhrif á það. „Það er allt of algengt að við erum í dag að bera okkur saman við eitthvað sem að er í rauninni mjög mikil breyting frá óröskuðu lífríki.“

Landinn fjallaði um rannsóknir Guðbjargar Ástu og Ragnars Edvardssonar haustið 2015.

 

hallao's picture
Halla Ólafsdóttir
dagskrárgerðarmaður
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi

Tengdar fréttir