Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Situr um bílaleigubíla og rænir ferðamenn

27.11.2018 - 11:22
Mynd með færslu
 Mynd:
Maðurinn sem situr í gæsluvarðhaldi vegna fjölda innbrota í Dacia Duster bifreiðar undanfarnar vikur er grunaður um að sitja um þá bíla vegna þess að það er algeng tegund bílaleigabíla og líklegt að alls slags verðmæti megi þar finna í farangri ferðamanna. Að sögn lögreglu hefur verið brotist inn í tugi bíla og miklum verðmætum stolið undanfarnar vikur en síðan maðurinn var settur í gæsluvarðhald síðasta miðvikudag hefur ekki verið tilkynnt um eitt innbrot af þessu tagi.

Almennt er lítið um innbrot í bílaleigubíla á Íslandi, samkvæmt upplýsingum frá Bílaleigu Akureyrar.

Þjófurinn sem herjar á Dacia Duster bifreiðarnar sprengir upp læsingar á hurðum bílanna og kemst þannig inn í þá. Ljóst er að hann á sér einhverja samstarfsmenn sem taka á móti þýfinu og kaupa það og er maðurinn í einangrun í gæsluvarðhaldinu til að vernda rannsóknarhagsmuni á meðan lögregla leitar vitorðsmanna og þýfis. Gæsluvarðhaldið yfir manninum, sem er erlendur að sögn lögreglu, rennur út á morgun en ekki hefur verið tekin ákvörðun um það hvort farið verður fram á framlengingu á því.

Í gæsluvarðhaldsúrskurði yfir manninum kemur fram að hann hefur nokkrum sinnum verið gómaður á vettvangi, jafnvel með ætlað þýfi í höndum, en alltaf neitað sök. Meðal þess sem hann hefur stolið eru myndavélar og myndavélabúnaður, drónar, fartölva, Colombia jakki og gleraugu. Í einu tilviki gat lögregla stuðst við myndupptöku úr eftirlitsmyndavél til að bera kennsl á hinn ákærða.