Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Sir David Attenborough á Íslandi

23.04.2019 - 13:54
epa04586963 British broadcaster and naturalist Sir David Attenborough poses for photographs at a preview screening for his latest nature documentary series called 'Natural Curiosities' at London Zoo, in London, Britain, 26 January 2015. The
 Mynd: EPA
Hinn heimsþekkti sjónvarpsmaður Sir David Attenborough, sem þekktastur er fyrir náttúrlífsþætti sína, dvelur nú á Íslandi og vinnur að verkefni fyrir breska ríkisútvarpið BBC.

Þetta kemur fram á mbl.is. Þar kemur einnig fram að framleiðslufyrirtæki Attenboroughs hafi staðfest veru hans á Íslandi í samtali við miðilinn. 

Framleiðslufyrirtækið True North kemur með einhverjum hætti að verkefninu samkvæmt frétt Mbl  Þar kemur þó ekki fram í hvaða erindagjörðum hann væri á landinu.

Þáttarröð Attenborough, Our Planet, var frumsýnd fyrir skömmu á efnisveitunni Netflix en þar fjallar hann um náttúrufegurð á jörðinni og þær áskoranir sem lífríki hennar stendur frammi fyrir vegna loftslagsbreytinga.

Attenborough hefur hlotið bandarísku Emmy verðlaunin og bresku BAFTA verðlaunin á löngum ferli sínum.

Þættirnir Hafið bláa hafið eða Blue Planet, sem Attenborough framleiddi í samstarfi við breska ríkisútvarpið og sýndir voru á RÚV í fyrra höfðu mikil áhrif á áhuga almennings í Bretlandi á málefnum hafsins.

Fréttastofa RÚV hafði samband við framleiðslufyrirtæki Attenboroughs, David Attenborough Limited, sem vildi ekkert segja en vísaði öllum fyrirspurnum á BBC. Því má gera ráð fyrir að Attenborough sé að vinna að einhverju verkefni fyrir breska ríkisfjölmiðilinn.