Sinn er siður í landi hverju

Mynd: Rætur / RÚV

Sinn er siður í landi hverju

15.01.2016 - 15:19

Höfundar

Þegar Barbara Jean Kristvinsson var nýflutt til Íslands frá Bandaríkjunum þótti henni ýmislegt einkennilegt í íslenskri menningu. Til dæmis að börn væru látin liggja sofandi í vögnum fyrir utan verslanir á Laugaveginum eins og ekkert væri eðlilegra. Samt þætti ekki ráðlegt að skilja nein önnur verðmæti eftir í vögnunum - því þeim yrði hugsanlega stolið. Það datt bara engum í hug að börnin yrðu tekin.

Í þriðja þætti Róta, sem sýndur verður á sunnudagskvöldið kemur kl. 19:45, verður fjallað um siði, venjur og hjátrú Íslendinga. Bæði þeirra sem hér eru bornir og barnfæddir, en líka aðfluttra Íslendinga. Við fáum að vita af hverju Aisté frá Litháen fær fyrir hjartað þegar hún gengur inn á kaffihús á Íslandi og sér hvar flestar konurnar geyma töskurnar sínar á meðan þær spjalla. Og hvernig Anup frá Nepal varð við í fyrsta sinn sem hann sat til borðs með Íslendingum og einhver þeirra hnerraði. Sinn er nefnilega siðurinn í hverju landi – og sumir ansi skrýtnir og skemmtilegir. 

Saumaklúbburinn eins og fjölskylda

Rætur er fimm þátta sería sem sýnd er á RÚV á sunnudagskvöldum í janúar. Í þáttunum er fjallað um fólk sem á rætur um allan heim en hefur sest að á Íslandi. Á sunnudaginn verður líka farið í saumaklúbb með nokkrum erlendum konum sem segja að saumaklúbburinn hafi verið eins og fjölskyldan þeirra í gegnum árin, því að þegar maður sest að í nýju landi eigi maður ósköp lítið bakland. 

Svo verður farið í heimsókn til úganskrar ömmu sem elskar snjóinn á Íslandi.

Svo ekki sé nú minnst á viðtalið við Lee Nelson, sirkusstjóra Sirkuss Íslands. Hann ætlaði bara rétt að koma við á Íslandi fyrir áratug síðan. Svo varð hann bara óvart ástfanginn af íslenskri konu – á skemmtistaðnum Sirkus. Og hér er hann enn. 

 

 

 

 

 

Tengdar fréttir

Einn bekkur – fjórtán tungumál

Á enn erfitt með að skilja hvað gerðist

22.744 mismunandi ástæður

„Vá, hún talar íslensku við mig!“