Sinfó og Lifun og KK

Mynd með færslu
 Mynd: Blúshátíð í Reykjavík

Sinfó og Lifun og KK

03.03.2016 - 16:25

Höfundar

Í Konsert kvöldsins byrjum við á að heyra Lifun Trúbrots flutta á íslensku af Sinfóníuhljómsveit Íslands, rokkhljómsveit og söngvurum á borð við Björgvin Halldórsson, Daníel Ágúst og Siggu Beinteins, og förum síðan á Blúshátíð í Reykjvaík í fyrra og heyrum upptöku þaðan með KK bandinu.

Lifun lifir! Þessi frábæra plata, þetta verk sem kom út árið 1971 með fyrstu íslensku Súpergrúppunni; Trúbrot. Trúbrot samanstóð af Hljómunum Gunna Þórðar og Rúnari Júlíussyni, orgelséníinu Karli Sighvatssyni, trommaranum frábæra Gunnari Jökli Hákonarsyni og Magnúsi Kjartanssyni sem líka frábær á marga vegu. Lifun er „konsept“ plata sem segir eiginlega frá lífi einstaklings – frá fæðingu til dauða...

Lifun hefur nokkrum sinnum verið flutt í heild sinni á þessum 45 árum frá því hún kom út – og hlutar verksins miklu oftar. Lifun var flutt í heild sinni í Eldborg 12. febrúar sl og þar kom fram eftirlifandi Trúbrots-fólk, þau Gunni Þórðar, Maggi Kjartans og Shady Owens sem var söngkona Trúbrots - þó hún hafi ekki verið það á Lifunartímanum.. Það var uppselt og almenn ánægja með þá tónleika og þeir verða endurteknir 26. Mars nk, daginn fyrir páskadag.

En árið 1992 voru haldnir Lifunar-tónleikar í Háskólabíó sem voru mjög umtalaðir. Þar flutti Sinfóníuhljómsveit Íslands verkið ásamt rokksveit og margir af þekktustu söngvurum landsins sungu, á íslensku. Textarnir voru þýddir af Þorsteini Eggertssyni og söngvararnir voru Sigga Beinteins, Stefán Hilmarsson, Eyjólfur Kristjánsson, Daníel Ágúst og Björgvin Halldórsson.

Lifun var útsett fyrir Sinfóníuhljómsveitina árið 1992 í tilefni af íslenska tónlistardeginum sem Samtök um byggingu tónlistarhúss stóðu fyrir. Verkið var flutt í Keflavík í Íþróttahúsinu og svo í Háskólabíó, og nokkrum síðar var þetta tekið upp og gefið út á diski árið 1994, sérstaklega fyrir þá sem voru styrktarmeðlimir í Samtökum um byggingu tónlistarhúss -  sem nú er risið loksins og heitir Harpa.

Við heyrum þessa upptöku í Konsert kvöldsins og heyrum svo í KK bandinu á Blúshátíð í fyrra á Nordica.

KK og hans menn spiluðu gamla standarda sem hafa verið á efnisskránni í aldarfjórðung í bland við lög eftir KK sjálfan.

Kristján Kristjánsson – gítar, munnharpa & söngur
Þorleifur Guðjónsson – bassi
Kormákur Geirharðsson – trommur
Eyþór Gunnarsson – Hammond
Gestir voru Debbie Davis og Bob Margolin

Konsert er á dagskrá Rásar 2 á fimmtudagskvöldum kl. 22.05

Umsjón: Ólafur Páll Gunnarsson
[email protected]

Tengdar fréttir

Popptónlist

Tekið ofan fyrir Bergþóru

Popptónlist

Íslenskt rokk og Eurovision á Eurosonic

Popptónlist

Bubbi 23 og 32 ára í útvarpinu

Popptónlist

Ziggy Stardust í Santa Monica 1972