Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Sindri fékk loforð um tugþúsundir evra

03.12.2018 - 20:15
Mynd með færslu
 Mynd: Sigríður Dögg Auðunsdóttir - RÚV
Allir sjö sakborningar í gagnaversmálinu svokallaða gáfu skýrslu fyrir Héraðsdómi Reykjaness í dag, vegna þjófnaðar á um 600 tölvum úr gagnaverum í Reykjanesbæ og Borgarnesi. Tveir sakborningar breyttu vitnisburði sínum og játuðu aðild að innbrotum í tvö gagnaver en segjast ekki hafa komið að skipulagi þeirra.

Annar þeirra er Sindri Þór Stefánsson sem sagðist ekki geta gefið upp nafn skipuleggjandans, af ótta við hann, þrátt fyrir að dómari hefði bent Sindra á að það gæti haft alvarlegar afleiðingar fyrir hann að gera það ekki. 

Átti að fá 50 þúsund evrur fyrir Advania-innbrotið

Sindri svaraði spurningum saksóknara í um klukkustund og spurningum frá öllum verjendum í málinu og dómara í aðra klukkustund. Sindri sagði að upphaflega hafi hann vonast til að meintur skipuleggjandi yrði fjárfestir fyrir nýja bitcoin-námu en hann hafi stungið upp á að ræna þær námur sem væru til staðar til að þynna samkeppnina hér á landi. Sindri hafi fallist á það þar sem hann hafi verið í fjárhagserfiðleikum. Hann kvaðst hafa átt að fá 50 þúsund evrur fyrir innbrotið í Advania-gagnaverið í Reykjanesbæ.

Sindri sagði að aðild hans að innbroti í Advania-gagnaverið um miðjan janúar hafi fólgist í að fara til Grindavíkur og búa til truflun fyrir Öryggismiðstöðina svo að öryggisverðir færu frá gagnaverinu í Reykjanesbæ til Grindavíkur. Það gekk síðan ekki sem skyldi. Sindri sagðist þá hafa verið beðinn að fara að Advania-gagnaverinu þar sem hann segist hafa fylgst með bifreið Öryggismiðstöðvarinnar úr fjarska.

Sindri neitar því að hafa tekið mynd sem hann sendi meðákærða, Hafþóri Loga Hlynssyni, þetta umrædda kvöld, af einhvers konar tæknirými. Sindri segir að Hafþór hafi ekki verið flæktur inn í málið á neinn hátt. Hafþór segist hafa veirð erlendis þegar brotin áttu sér stað og ekki vitað um hvað verkefnið sem Sindri var í snérist þrátt fyrir mikil samskipti þeirra á milli.

Fylgdi útlendingi til Borgarness í gagnaver

Hann segist hafa boðið einum meðákærða að taka þátt í Advania-innbrotunum vegna þess að hann hafi vantað pening. Sá var handtekinn vegna innbrotsins í Borgarnesi, sem þeir játuðu báðir aðild að, fyrir að hafa keypt bíl sem var notaður. Sindri segist hafa borgað fyrir bílinn, eftir að meðákærði var handtekinn hafi hann reiðst Sindra fyrir að blanda sér í eitthvað sem hann vissi ekki hvar var - að hans sögn.

Sindri segist hafa fylgt útlendingi, sem hann þekkti ekki, á annarri bifreið til Borgarness að gagnaverinu. Útlendingurinn hafi síðan ekið áleiðis til Reykjavíkur en Sindri hélt til Akureyrar. 

Reyndi að fela slóð sína

Fulltrúi ákæruvalds spurði hann ítrekað út í notkun á mismunandi símum og símanúmerum. Sindri sagðist hafa notað þessa aðferð til þess að fela slóð sína og að hann hafi gert sér fulla grein fyrir að hann væri að gera eitthvað ólöglegt. 

Sindri og hinn sakborningurinn sem breytti vitnisburði sínum í morgun segja að fyrrverandi starfsmaður Öryggismiðstöðvarinnar og einn af sjö sakborningum, hafi gefið þeim upplýsingar um vöktun og aðgangskóða að svæðinu. Sá sakborningur neitaði því og sagði að hann hefði aðeins gefið þeim almennar upplýsingar um gagnaverið þar sem hann starfaði í afleysingum, vegna þess að honum hafi verið hótað. Hann leitaði þó ekki til lögreglu vegna málsins.

Fulltrúar tjónþola mættu fyrir dóm á eftir sakborningum í dag. Á miðvikudag gefa vitni skýrslu fyrir dómi í málinu og munnlegur málflutningur fer fram á föstudag.

Fréttin hefur verið uppfærð.