Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Sindri á sér líklega vitorðsmenn

17.04.2018 - 19:31
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV/samsett mynd
Nær fullvíst er að Sindri Þór Stefánsson,  sem strauk úr gæsluvarðhaldi í fangelsinu að Sogni í nótt og flaug til Svíþjóðar á fölsuðum skilríkjum, hafi haft vitorðsmenn til að hjálpa sér að skipuleggja flóttann. Þetta segir Gunnar Ólafur Schram, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á Suðurnesjum.

„Ég tel fullvíst að hann eigi vitorðsmann, eða menn, sem hafi aðstoðað hann að koma sér af Sogni á flugstöðina. Og við ýmsa hluti þar á milli. Þetta er einmitt tímabil sem við erum með til rannsóknar núna,“ segir hann.

Gunnar telur að það gætu verið líkur á að Sindri sé farinn frá Svíþjóð, sænska lögreglan sé nú með það í skoðun.  Hann segist þó vera bjartsýnn á að hafa hendur í hári hans.

„Ég get alveg fullyrt að við munum hafa hendur í hári hans á einhverjum tímapunkti. En hvort eða hvar það verði,  það er nú dálítið erfitt að segja til um núna. Hvort það verði vikur, mánuðir eða ár.“

Þórhildur Þorkelsdóttir
Fréttastofa RÚV