Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Síminn kvartar undan norsku útrásarvíkingunum í Exit

04.02.2020 - 11:39
Fjölmiðlar · Innlent · Exit · rúv · Síminn
Mynd með færslu
 Mynd: NRK - Exit
Magnús Ragnarsson, framkvæmdastjóri sölusviðs hjá Símanum, hefur sent fjölmiðlanefnd kvörtun vegna norsku þáttanna Exit. Þættirnir, sem eru ekki sýndir í sjónvarpi heldur eru eingöngu aðgengilegir á vef RÚV og í RÚV-appinu, eru stranglega bannaðir innan 16 ára.

Morgunblaðið greindi fyrst frá kvörtun Símans í morgun. 

Í kvörtun Símans er athygli nefndarinnar vakin á því að þarna sé á ferðinni einstaklega gróft efni.  „Það ætti að vekja sérstaka athygli nefndarinnar þar sem engar aðgangsstýringar eru á spilara Ríkisútvarpsins til að verja börn og ungmenni fyrir þessu efni heldur liggur það einfaldlega þarna með Krakkafréttum og Stundinni okkar,“ segir í kvörtun Símans. 

Þá er á það bent að RÚV „stærir sig af því að holskefla af kærum hafi borist NRK vegna þáttanna.“  Stofnunin sé því meira en meðvituð um hversu grófir og hrottalegir þættirnir séu en láti sér samt í léttu rúmi liggja að þeir séu aðgengilegir í opnum spilara þvert á reglur. 

Samkvæmt upplýsingum frá fjölmiðlanefnd verður nú óskað eftir sjónarmiðum RÚV vegna málsins og þau lögð fyrir nefndina. Hún mun síðan meta í framhaldinu hvort svör RÚV gefi tilefni til að taka málið til efnislegrar meðferðar. Fjölmiðlanefnd fundar á þriggja vikna fresti.

Elfa Ýr Gylfadóttir, framkvæmdastjóri fjölmiðlanefndar, segir í samtali við fréttastofu að nefndin hafi átt í samskiptum við fjölmiðla sem bjóða upp á myndefni eftir pöntun eða svokallað VOD. Þau samskipti hafi verið að frumkvæði fjölmiðlanefndar vegna nýrrar tilskipunar þar sem gerðar eru strangar kröfur um tæknilegar ráðstafanir; að hægt sé að stýra aðgangi að efni sem er bannað.

Elfa segir að þegar séu í gildi ákvæði um vernd barna varðandi myndefni eftir pöntun. Herða eigi á þeim ákvæðum með innleiðingu nýrrar tilskipunar. Þá gat hún upplýst að bæði Sýn og Síminn hafi að mestu leyti uppfyllt kröfur um vernd barna í myndefni eftir pöntun „en það stendur mest út af hjá RÚV í þessum efnum,“ segir Elfa.