Síminn braut af sér

27.01.2012 - 12:25
Mynd með færslu
 Mynd:
Héraðsdómur Reykjavíkur hefur staðfest niðurstöðu Samkeppniseftirlitsins um að Síminn hafi brotið gegn banni um að tvinna saman fjarskipta- og sjónvarpsþjónustu. Fjarskiptafyrirtækið TSC á norðanverðu Snæfellsnesi kærði Símann til Samkeppniseftirlitsins vegna málsins.

Samkeppniseftirlitið sektaði Símann um 150 milljónir króna. Áfrýjunarnefnd samkeppnismála lækkaði síðar sektina í 50 milljónir króna vegna versdandi fjárhagsafkomu Símans.

Dómurinn komst að þeirri niðurstöðu að hegðun Símans væri til þess fallinn að veikja samkeppnisstöðu smárra fjarskiptafyrirtækja, sem byggja afkomu sína á rekstri staðbundinna dreifikerfa. Héraðsdómur féllst ekki á þá kröfu Símans að fella sektina niður, og benti á skaðleg áhrif af háttsemi Símans markaðnum fyrir nettengingar og Internetþjónustu á Snæfellsnesi. Þar sem dómurinn taldi brotið ekki eins umfangsmikið og áfrýjunarnefnd, var sektin lækkuð í 30 milljónir króna.

Héraðsdómur féllst hins vegar ekki á þá niðurstöðu áfrýjunarnefndar samkeppnismála að Síminn hefði brotið skilyrði sem lagði á hann skyldu að veita öðrum fyrirtækjum aðgang að dreifikerfi fyrirtækisins fyrir sjónvarp og útvarp. Taldi dómurinn að ekki væri nægjanlega skýrt að það skilyrði tæki til fyrirtækja eins og TSC.

Samkeppniseftirlitið segir í tilkynningu að til athugunar sé hvort dóminum verður áfrýjað til Hæstaréttar.

Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi