Símanum gert að greiða háar sektir

03.04.2012 - 16:28
Mynd með færslu
 Mynd:
Samkeppniseftirlitið leggur 440 milljóna króna sekt á Símann fyrir brot á samkeppnislögum. 390 milljónir eru fyrir misnotkun á markaðsráðandi stöðu á farsímamarkaði en 50 milljónir fyrir ranga og misvísandi upplýsingagjöf í málinu.

Samkeppniseftirlitið hefur haft til rannsóknar kæru Nova vegna verðlagningar Símans á farsímamarkaði og komst að þeirri niðurstöðu að Síminn hafi brotið gegn samkeppnislögum og EES-samningnum með því að beita keppinauta sína verðþrýstingi.

Verðþrýstingur felst í aðalatriðum í því að markaðsráðandi fyrirtæki eru í oddastöðu bæði á heildsölu- og smásölumarkaði og nýti sér hana til gera nýjum keppinautum erfiðara fyrir að ná fótfestu á smásölumarkaði. Í slíku tilviki er viðkomandi fyrirtæki markaðsráðandi á heildsölustigi og starfar einnig á tengdum smásölumarkaði.

Brotið getur falist í óeðlilega hárri verðlagningu á heildsöluaðfanginu sem gerir rekstur keppinauta á smásölumarkaði óarðbæran eða dregur úr hagnaði þeirra og vinnur þar með gegn því að þeir geti keppt af krafti á smásölumarkaðnum, almenningi til hagsbóta.

Mál þetta snérist um það gjald er síminn tók fyrir að önnur fyrirtæki notuðu kerfi þeirra. Keppinautar Símans geta ekki starfað á farsímamarkaði nema viðskiptavinir þeirra geti hringt í viðskiptavini Símans. Til þess að það sé unnt þarf t.d. Nova að greiða Símanum fyrir lúkningu símtala sem byrja í kerfi Nova en enda í kerfi Símans. Lúkningargjaldið er þannig hluti af heildsöluverði símtalsins en smásöluverðið er það verð sem Nova innheimtir af sínum viðskiptavinum. Á stærstum hluta brotatímabilsins var þetta heildsöluverð Símans til keppinauta hærra en smásöluverð Símans á símtölum milli viðskiptavina í farsímaþjónustu fyrirtækisins.

Umrædd brot Símans áttu sér stað á árunum 2001 til ársloka 2007 og teljast mjög alvarleg. Þá hefur Síminn áður brotið gegn samkeppnislögum.

Í yfirlýsingu sem Síminn sendi frá sér, er rökstuðningi Samkeppnisstofnunar hafnað og fullyrt að Síminn greiði nýjum símfyrirtækjum meira fyrir millikerfasímtöl en þessi fyrirtæki greiði Símanum. Ákvörðun Samkeppnisstofnunar skaði samkeppni og vísað er til álits dansks ráðgjafafyrirtækis, sem segir að aðferðafræði Samkeppniseftirlitsins sé hvorki í samræmi við aðferðafræði evrópskra samkeppnisstofnana né ýmsar fjarskiptseftirlitsstofnanir.

Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi