Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Símafyrirtæki ræða samstarf við innviðauppbyggingu

20.12.2019 - 08:38
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Fjarskiptafyrirtækin Síminn, Sýn og Nova hafa undirritað viljayfirlýsingu um viðræður um möguleika á samnýtingu og samstarfi við uppbyggingu fjarskiptainnviða.

Fjarskiptafyrirtækin Síminn, Sýn og Nova hafa undirritað viljayfirlýsingu um viðræður um möguleika á samnýtingu og samstarfi við uppbyggingu fjarskiptainnviða. Með viðræðunum vilja fyrirtækin kanna möguleika á því að fyrirtækin geti byggt undir markmið sem koma fram í stefnu Alþingis í fjarskiptum fyrir árin 2019-2033 um aðgengi að fjarskiptum, öryggi fjarskipta, hagkvæmni og skilvirkni fjarskipta sem og að draga úr umhverfisáhrifum fjarskipta.

Í tilkynningu frá fyrirtækjunum segir að mikilvægi fjarskipta í tengslum við náttúrúhamfarir hafi bersýnilega komið í ljós í óveðri sem nýverið gekk yfir landið. Fjarskiptafyrirtækin geti unnið að því samfélagslega markmiði að tryggja eftir fremsta megni uppitíma fjarskipta þegar mikið liggur við, að því marki sem það er í þeirra höndum.

Viljayfirlýsingin felur ekki í sér fjárhagslegar skuldbindingar fyrir fyrirtækin og hafa ekki áhrif á rekstur eða afkomu þeirra. Fyrirhugaðar viðræðurnar hafa verið tilkynntar Samkeppniseftirlitinu og eru háðar samþykki þess ef þær leiða til samkomulags.
 

 

Jón Hákon Halldórsson
Fréttastofa RÚV