Síloxön: varasöm efni í mörgum snyrtivörum

Mynd með færslu
 Mynd:

Síloxön: varasöm efni í mörgum snyrtivörum

19.01.2015 - 17:01
Síloxön eru hópur mismunandi efna sem eiga það sameiginlegt að mynda stuttar eða langar keðjur, eða hringi, þar sem skiptast á kísilfrumeindir og súrefnisfrumeindir. Kísilfrumeindunum tengjast síðan mismunandi efnahópar.

Þessi efni er að finna í ýmsum húð og hárvörum en mýkjandi eiginleiki þeirra er það sem sóst er eftir. Nú hafa síloxön mælst í miklum mæli á Svalbarða og hljóta þau því að hafa borist þangað um langan veg. 

Stefán Gíslason umhverfisstjórnunarfræðingur segir frá síloxönum og hvernig hægt er að forðast snyrtivörur með slíkum efnum. 

Samfélagið mánudaginn 19. janúar 2015

[email protected]

----------------------------------------------------------   

Pistill Stefáns: Síloxön á Svalbarða

Síloxön mælast í miklu magni í andrúmsloftinu á Svalbarða, að því er fram kemur í skýrslu sem Umhverfisstofnun Noregs (Miljødirektoratet) birti milli jóla og nýárs. Þetta þætti ef til vill ekki í frásögur færandi, nema vegna þess að þarna norður frá er sáralítið notað af síloxönum en samt mældist styrkur þeirra þar allt að því 1.000 sinnum hærri en styrkur annarra þekktra eiturefna á borð við PCB, DDT, brómeruð eldvarnarefni og perflúoruð efni.

Þegar maður heyrir fréttir af þessu tagi vakna eðlilega ýmsar spurningar. Fyrsta spurningin er þá sjálfsagt hvernig í ósköpunum efni af þessu tagi geti borist alla leið til Svalbarða. Slíkur flutningur loftborinna efna er reyndar vel þekktur og er stundum kenndur við svokallað hnatteimingarlíkan. Efni sem sleppa út í andrúmsloftið í iðnríkjum heimsins og brotna ekki auðveldlega niður í náttúrunni hafa nefnilega tilhneigingu til að berast í átt að heimskautasvæðunum með veðri og vindum. Þetta þekkja menn vel frá efnum á borð við DDT og PCB sem finnast m.a. í ísbjörnum á Norðurslóðum, þúsundum kílómetra frá þeim stað þar sem efnin voru upphaflega notuð.

Önnur spurning sem vaknar er eðlilega sú hvers konar efni þessi síloxön séu eiginlega og til hvers þau séu notuð. Því er til að svara að síloxön er hópur mismunandi efna sem eiga það sameiginlegt að mynda stuttar eða langar keðjur eða hringi þar sem skiptast á kísilfrumeindir og súrefnisfrumeindir og þar sem mismunandi efnahópar sitja utan á hverri kísilfrumeind. Efni af þessu tagi eru til margra hluta nytsamleg, en efnin sem fundust á Svalbarða eru einkum upprunnin úr snyrtivörum, þar sem þau hafa verið notuð til að gera það auðveldara að smyrja á sig kremunum eða greiða hárið, eða þá til að gefa rakakreminu raka áferð. Efnin er sem sagt að finna í ýmsum húð- og hárvörum, en einnig í hreinsiefnum fyrir hús og bíla, svo eitthvað sé nefnt. Til eru fjölmargar gerðir síloxana og mörg þeirra eru sögð vera alveg skaðlaus. Hins vegar er vitað að önnur geta verið skaðleg ef þau berast út í náttúruna og þá m.a. valdið fóstursköðum hjá dýrum. Síloxön gufa yfirleitt auðveldlega upp og geta borist langar leiðir með loftstraumum. Samkvæmt því sem fram kemur á heimasíðu Umhverfisstofnunar Noregs geta síloxön sem gufa upp úr vökva sem notaður er til að hreinsa framan úr sér farða dagsins, þ.e.a.s. sílóxön úr „make-up-remover“ eins og þessar vörur kallast á fremur slæmri íslensku, borist út um baðherbergisglugga í Osló og alla leið upp á Zeppelínfjallið á Svalbarða á einum sólarhring ef vindátt og veðurhæð eru hagstæðar fyrir slíka efnaflutninga. Og auðvitað geta efnin líka borist þarna norður eftir úr baðherbergjum sunnar í álfunni.

Eins og áður segir eru til fjölmargar tegundur af síloxönum, en tvær þeirra þykja öðrum varasamari eins og þekkingu manna er háttað í dag. Þetta eru síloxönin D4 og D5, þ.e.a.s. oktametýlcýklótetrasíloxan og dekametýlcýklópentasíloxan. Það er sjálfsagt að æra óstöðugan að reyna að útskýra þessi efnaheiti, en D5, eða dekametýlcýklópentasíloxan, gæti allt eins heitið tíu-metýl-hring-fimm-síloxan, vegna þess að í efninu eru fimm kísilfrumeindir og fimm súrefnisfrumeindir sem mynda hring og utan á þeim eru samtals 10 metýlhópar. Efnaheiti eru nefnilega yfirleitt mjög rökrétt ef þau eru lesin nógu hægt og klippt í sundur á réttum stöðum.

Efnin D4 og D5 eru bæði á svörtum lista hjá norskum stjórnvöldum, þ.e.a.s. á svonefndum „verstingslista“. Norðmenn vilja að notkun og losun þessara efna verði alfarið hætt fyrir árið 2020, og á vettvangi Evrópusambandsins er unnið að því að koma lögum yfir þessi efni innan ramma REACH-tilskipunarinnar.

Þetta er í fyrsta sinn sem síloxön mælast í loftsýnum á Svalbarða, einfaldlega vegna þess að þau hafa ekki áður verið tekin með í reglubundnum mælingum þar. Þessi uppgötvun kemur þó ekki beinlínis á óvart, því að síloxön hafa áður fundist í þorski, svartbökum, ritu og selum þar norður frá. Sama má reyndar segja um dýr í norskum stöðuvötnum, svo sem í Mjøsa, eins og sagt var frá á íslensku umhverfisfróðleikssíðunni 2020.is fyrir rúmu ári.

Líta má á dæmið um síloxönin á Svalbarða og þær áhyggjur sem það vissulega veldur sem áminningu um það hversu lengi menn eru oft að bregðast við rökstuddum áhyggjum vísindamanna af manngerðum efnum í náttúrunni. Áhyggjur af hugsanlegri skaðsemi síloxananna D4 og D5 kviknuðu nefnilega ekki á milli jóla og nýárs 2014. Árið 2005 kom t.d. út skýrsla hjá Norrænu ráðherranefndinni undir yfirskriftinni „Síloxön í norrænu umhverfi“, þar sem fram kom að sílöxön hefðu fundist í öllum sýnum sem tekin voru úr lofti, lífverum, seti, seyru og vatni á öllum Norðurlöndunum, þar með töldu Íslandi. Þar kom líka fram að nýlegar rannsóknir bentu til að þessi efni gætu haft bein og óbein eituráhrif á ýmsa líffræðilega ferla og þó að styrkur efnanna hefði ekki verið hár í sýnum sem tekin voru á þessum tíma þá gætu skaðleg áhrif átt eftir að koma fram ef haldið yrði áfram að nota þessi efni.

Nú er eðlilegt að spurt sé hvað venjulegt fólk geti gert til að koma í veg fyrir að síloxön úr snyrtivörunum þeirra safnist upp í umhverfinu og valdi lífríkinu vaxandi skaða eftir því sem árin líða. Svarið við spurningunni er ekki endilega að fólk eigi að hætta að nota snyrtivörur, heldur miklu frekar að framleiðendur snyrtivara eigi að hætta að nota hættuleg efni í vörurnar. Venjulegt fólk er hins vegar svo heppið að það getur auðveldlega sniðgengið snyrtivörur sem innihalda efni á borð við D4 og D5, og það meira að segja án þess að kunna nokkur skil á efnaformúlum. Lausnin felst einfaldlega í því að kaupa eingöngu Svansmerktar snyrtivörur, já og Svansmerkt bílahreinsiefni líka. Svansmerktar vörur innihalda nefnilega engin efni af þessu tagi. Eða eins og það er orðað í umfjöllun á heimasíðu Svansins í Noregi um þetta mál: „Fyrir þann sem vill eiturlausan hversdag er Svanurinn stysta leiðin í mark“.