Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Silja svarar gagnrýni Sigmundar fullum hálsi

05.11.2018 - 17:05
Mynd með færslu
 Mynd: Anton Brink - Ruv.is
Silja Dögg Gunnarsdóttir, þingmaður Framsóknarflokks, gagnrýnir fyrrverandi formann sinn, Sigmund Davíð Gunnlaugsson, harðlega í færslu á Facebook í dag. Færslan ber yfirskriftina „Riddarinn hugdjarfi” og snýr að ræðu Sigmundar Davíðs á flokksráðsfundi Miðflokksins á Akureyri um helgina þar sem hann sagði ríkisstjórnina verklausa og kjarklitla og sakaði hana um aumingjaskap.

Silja Dögg segir í færslu sinni að ummæli Sigmundar hafi verið stórskotahríð úr glerhýsi. 

„Sami maður og hljóp út úr sjónvarpsviðtali. Maður sem mætti sárasjaldan í þingsal þegar hann var forsætisráðherra, brunaði á Bessastaði án vitundar þingflokks síns til að slíta stjórnarsamstarfi (gegn vilja þingflokks), hljóp út af flokksþingi þegar hann tapaði kosningu í stað þess að óska keppinauti sínum til hamingju og þakka stuðningsmönnum sínum (sem margir hverjir komu langt að) fyrir stuðninginn. Sami maður og hefur margsinnis verið á flótta undan fjölmiðlum og öðrum þeim sem hafa gagnrýnt hann, í stað þess að svara spurningum heiðarlega.”

Silja Dögg segir Sigmund varla hafa mætt til vinnu í heilt ár og einbeitt sér að því að stofna flokk um sjálfan sig og safna frímerkjum. Þá segir hún Sigmund beita aðferðum einræðisherra og popúlista til að ná völdum, með því að búa til óvini.

Þá skýtur hún föstum skotum að Sigmundi fyrir að hafa gengið út af flokksþingi þegar hann tapaði formannskjörinu og að sumir flokksmenn hans í Miðflokknum standi í þeirri trú að hann hafi einn látið leiðrétta húsnæðislán landsmanna. 

Ekki náðist í Sigmund Davíð við vinnslu fréttarinnar. 

sunnav's picture
Sunna Valgerðardóttir
Fréttastofa RÚV