Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Sigurjón sakar gamla Landsbankann um óbilgirni

29.10.2018 - 13:21
Mynd með færslu
Sigurjón ásamt lögmanni sínum, Sigurði G. Guðjónssyni. Mynd: Bragi Valgeirsson - RÚV
Sigurjón Þ. Árnason sakar forsvarsmenn gamla Landsbankans um ósanngirni og óbilgirni með 72 milljarða skaðabótamálum á hendur honum og sjö öðrum stjórnendum bankans fyrir hrun. Sigurjóni varð heitt í hamsi þegar hann lýsti óánægju sinni með málshöfðunina fyrir dómi í morgun, sem varð til þess að Skúli Magnússon héraðsdómari minnti hann á að láta dóma og lýsingarorð, sérstaklega í garð lögmanna, eiga sig.

Skýrslur af Björgólfsferðum, Geir og Davíð

Aðalmeðferð málanna, sem eru þrjú en rekin sem eitt, hófst í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun. Þau hafa verið fyrir dómi í um sex ár. Til stendur að taka skýrslu af mörgum tugum manna í málinu, meðal annarra Björgólfsfeðgum, Geir H. Haarde og Davíð Oddssyni, og er gert ráð fyrir að aðalmeðferðin taki marga daga.

Sigurjón talaði mikið og lengi

Réttarhöldin hófust á langri skýrslutöku yfir Sigurjóni, sem rakti aðdraganda hrunsins og ákvarðanirnar sem um er rætt í þaula – hann var aðeins hálfnaður í hádeginu. Stór hluti málsins byggir á að Landsbankinn hafi verið ógjaldfær þegar milljarðar runnu út úr honum í byrjun október 2008, en Sigurjón færði rök fyrir því að svo hefði ekki verið.

177 milljarðar úr bankanum 6. október 2008

Stærsta málið af þremur snýst um 35 milljarða sem runnu út úr Landsbankanum 6. október, daginn sem neyðarlögin voru sett, til Straums, MP Banka og Landsvaka. Sigurjón benti á að þennan dag hefðu 177 milljarðar farið út úr bankanum í gegnum svokallað stórgreiðslukerfi, sem allar greiðslur yfir 10 milljónum fóru um. Það væri óeðlileg krafa á hendur stjórnendum að stöðva sumar af þeim greiðslum en ekki aðrar – þennan dag hafi einfaldlega verið unnið eins og alla aðra daga.

Björgólfi ekki stefnt, enda gjaldþrota

Átta manns er stefnt í málunum: bankastjórunum Sigurjóni og Halldóri J. Kristjánssyni, Elínu Sigfúsdóttur, sem var forstöðumaður fyrirtækjasviðs bankans, Jóni Þorsteini Oddleifssyni, sem var yfir fjárstýringu bankans, og bankaráðsmönnunum Kjartani Gunnarssyni, Þorgeiri Baldurssyni, Andra Sveinssyni og Svöfu Grönfeldt. Björgólfi Guðmundssyni, sem var formaður bankaráðsins, er ekki stefnt, enda varð hann gjaldþrota fljótlega eftir hrun. Þá er nokkrum tryggingafélögum stefnt vegna stjórnendaábyrgðar.

Sögð hafa treyst á munnlega yfirlýsingu Hreiðars Más

Í öðru málinu af þremur er bankinn talinn hafa orðið fyrir rúmlega 11 milljarða króna tjóni af enn hærri lánveitingu til Straums í byrjun október 2008. Þar er Sigurjóni og Halldóri stefnt. Í þriðja lagi er stefnt vegna tjóns upp á rúma 16 milljarða af skuld við fjárfestingafélagið Gretti, sem var í eigu Björgólfs Guðmundssonar. Skuldin var tryggð með ábyrgð frá Kaupþingi í Lúxemborg og er Sigurjóni, Halldóri og Elínu gefið að sök að hafa ekki gengið nægilega eftir því að innheimta ábyrgðina í tæka tíð en treysta í staðin á munnlega yfirlýsingu Hreiðars Más Sigurðssonar, forstjóra Kaupþings, um að hún yrði framlengd. Síðasta málið er það eina af þessum þremur þar sem Elínu er stefnt.

 

stigurh's picture
Stígur Helgason
Fréttastofa RÚV