Sigurjón Árnason sakfelldur

19.11.2014 - 10:05
Mynd með færslu
 Mynd:
Sigurjón Árnason, fyrrverandi bankastjóri Landsbankans, og tveir undirmenn hans voru í Héraðsdómi Reykjavíkur sakfelldir í einu umfangsmesta markaðsmisnotkunarmáli sem verið hefur hjá embætti sérstaks saksóknara til þessa. Einn var sýknaður. Réttarhöldin í málinu stóðu í hálfan mánuð.

Sigurjón hlaut tólf mánaða fangelsi, þar af voru níu mánuðir skilorðsbundnir. Sindri Sveinsson, starfsmaður eigin fjárfestinga var sýknaður en samstarfsmenn hans Júlíus Steinar Heiðarsson og Ívar Guðjónsson voru báðir dæmdir í níu mánaða fangelsi, þar af voru sex mánuðir skilorðsbundnir.

Fjórmenningarnir, Sigurjón bankastjóri, Ívar Guðjónsson, yfirmaður eigin fjárfestinga bankans, og Júlíus Steinar Heiðarsson og Sindri Sveinson, starfsmenn eigin fjárfestinga, voru sakaðir um að hafa handstýrt verði hlutabréfa í bankanum í kauphallarviðskiptum í tæpt ár fyrir hrun, og þannig hægt á eða komið í veg fyrir að hlutabréfaverðið lækkaði.

Málið var mjög umfangsmikið og voru skýrslutökur yfir Júlíusi Steinari sagðar hafa sett Íslandsmet í skýrslutökum - þær stóðu í þrjá daga. Júlíus fór þar hörðum orðum um málatilbúnað og rannsókn málsins og sagði kauphallarhermi, sem saksóknari notaði til að sýna meint brot, vera órafjarri veruleikanum.

Meðal þeirra sem báru vitni í málinu voru feðgarnir Björgólfur Guðmundsson og Björgólfur Thor Björgólfsson, Halldór J. Kristjánsson, fyrrverandi bankastjóri bankans og Kjartan Gunnarsson.

Sigurjón sjálfur fór mikinn í lok réttarhaldanna og sagðist þar vera að berjast við ofurefli. Hann sakaði sérstakan saksóknara um að þyrla upp moðreyk. Í ræðu hans kom meðal annars fram að starfsmenn sérstaks saksóknara hefðu farið yfir 520 þúsund tölvuskeyti, 80 kassa af gögnum, handtekið menn, hlustað á upptökur af símtölum og ekkert fundið. Sigurjón sagði fjórmenningana hafa verið venjulega menn sem hefðu verið að vinna sína vinnu og reynt að gera það vel. 

Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi