Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Sigurður Ingi forsætisráðherra–Lilja ráðherra

06.04.2016 - 17:57
Sigurður Ingi Jóhannsson verður forsætisráðherra en ekki er búið að ganga frá endanlegri ráðherraskipan. Þetta kom fram á heldur óvæntum blaðamannafundi sem Höskuldur Þórhallsson, þingmaður Framsóknarflokks, hélt í stiganum í þinghúsinu. „Ég hélt að þið væruð búinn að taka viðtal við þá,“ sagði Höskuldur, og baðst afsökunar á þessu en virðist hafa upplýst um utanþingsráðherra sem er Lilja Alfreðsdóttir, aðstoðarframkvæmdastjóri í Seðlabanka Íslands og dóttir Alfreðs Þorsteinssonar.

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, sagði þetta allt á sömu bókina lært - óbreyttur þingmaður hefði komið niður og tilkynnt hver tæki við stjórnartaumunum.

Þingmenn stjórnarandstöðunnar virtust hreinlega ekki eiga orð yfir þessum óvæntu tíðindum sem voru ekki færð fram á hefðbundin hátt heldur virtist almennur þingmaður hafa talað af sér. Svandís Svavarsdóttir, þingflokksformaður VG, sagði þetta lýsandi fyrir stöðuna hjá ríkisstjórnarflokkunum - þar væri upplausnarástand.

Höskuldur sagði reyndar í viðtalinu í stiganum í Alþingishúsinu að Sigmundur Davíð hefði ekki gefið nógu skýr svör um hvort hann ætlaði að halda áfram þingmennsku.

Og hver er LIlja Alfreðsdóttir sem nú hefur verið upplýst að verði utanþingsráðherra? Hún er aðstoðarframkvæmdastjóri í Seðlabanka Íslands, var áður í forsætisráðuneytinu á grundvelli tímabundins vistaskiptasamnings forsætisráðuneytisins við Seðlabankann. Hún hefur unnið í bankanum frá árinu 2014 og starfað sem aðstoðarframkvæmdastjóri frá 2005. Hún var einnig starfsmaður AGS í Washington frá 2010 til 2012.

Þessi frétt verður uppfærð

 

 

________________________________________________________________________________

Þingflokksfundi Framsóknarflokksins virðist vera lokið - tveir þingmenn flokksins sáust fara niður í kjallara, þeir Karl Garðarsson og Frosti Sigurjónsson. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og Eygló Harðardóttir eru á kaffistofunni og eru að fá sér þar kaffi.   Þingmenn Sjálfstæðisflokksins eru sömuleiðis komnir af fundinum.

Þingflokkur Sjálfstæðisflokksins hefur gert hlé á sínum fundi á meðan Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins fundar með fulltrúum stjórnarandstöðunnar.  Heimildir fréttastofu herma að þingflokkur Sjálfstæðisflokksins hafi ekki verið upplýstir um hverjir verði ráðherrar Framsóknar. 

Enginn hefur komið út af þingflokksfundi Framsóknarflokksins en þess er nú beðið að Sigurður Ingi Jóhannsson, verðandi forsætisráðherra, komi á fund Bjarna og stjórnarandstöðunnar. Ef marka má twitter-aðgang Bjarna færi Sigurður engar pizzur sem Jón Gunnarsson kom með.

Bæði mbl.is og Kjarninn segjast hafa heimildir fyrir því að gengið verði til kosninga í haust eins og fréttastofa hafði greint frá fyrr í dag. Mbl.is slær því upp að rætt hafi verið um að kjósa laugardaginn 8. október. Kjarninn segist hafa heimildir fyrir því að annað hvort verði kosið í október eða nóvember. Fréttastofa hefur heimildir fyrir því að ekki sé komin nákvæm dagsetning.

Guðni Th. Jóhannsson, háskólaprófessor, sagði í myndveri sjónvarps að miðað við fréttir væri það hættuspil af stjórnarflokkunum að sitja áfram til hausts en boða þá til kosninga - ekki síst þar sem von væri á frekari upplýsingum um Panama-skjölin svonefndu sem mögulega tengdust áhrifamönnum stjórnarflokkanna. 

Mynd: RÚV / RÚV

Fastlega er reiknað með að Sigurður Ingi verði forsætisráðherra og Kjarninn segist hafa upplýsingar um að Ásmundur Daði Einarsson taki sæti í ríkisstjórninni.

Fyrstir til að ganga í húsið voru ráðherrar Sjálfstæðisflokksins, Bjarni Benediktsson og Ólöf Nordal. Á eftir þeim kom Sigurður Ingi Jóhannsson og svo loks Sigmundur Davíð Gunnlaugsson.

Mynd: RÚV / RÚV

Guðlaugur Þór Þórðarson, varaformaður þingflokks Sjálfstæðisflokksins, vildi hvorki játa né neita því að Sigurður Ingi Jóhannsson yrði næsti forsætisráðherra og Ásmundur Daði Einarsson næsti sjávarútvegsráðherra.

Mynd: RÚV / RÚV

Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, upplýsti í beinni útsendingu að stjórnarandstaðan hefði verið boðuð á fund nýrrar stjórnar.  Hann taldi það skref í rétta átt að boðað yrði til kosninga í haust - hann væri þó ekki sáttur með þá niðurstöðu.

Mynd: RÚV / RÚV
freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV