Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Sigurður A. Magnússon látinn

Mynd með færslu
 Mynd: Skjáskot - RÚV

Sigurður A. Magnússon látinn

03.04.2017 - 18:01

Höfundar

Sigurður A. Magnússon rithöfundur er látinn, 89 ára að aldri. Hann sendi frá sér fjölda bóka á löngum rithöfundarferli. Þar á meðal voru ljóð, þýðingar, ferðasögur og minningarbækur.

Sigurður sendi fyrstu bók sína frá sér árið 1953, það var ferðabókin Grískir reisudagar. Ein hans þekktasta bók er þó fyrsta bindi endurminninga hans, sem nefndist Undir kalstjörnu. Fyrir þá bók fékk hann Menningarverðlaun DV árið 1980. Hann hlaut viðurkenningu Rithöfundasjóðs Ríkisútvarpsins 1985 og fyrstu verðlaun í ritgerðarsamkeppni sem kennd er við Jean Monnet árið 1995. Sigurður var virkur í félagsmálum. Hann var meðal annars formaður Rithöfundasambands Íslands, Norræna rithöfundaráðsins og Íslandsdeildar Amnesty International. Hann var í dómnefnd Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs um níu ára skeið.

Sigurður A. Magnússon var viðmælandi í þættinum Maður er nefndur árið 1999. Þar ræddi hann hvert af hans eigin verkum honum þætti vænst um, hvort hann væri „kvenna- og lífsnautnamaður“ og að lokum um síðustu árin fyrir þáttinn.

Mynd: Maður er nefndur / RÚV

Sigurður fæddist á Móum á Kjalarnesi árið 1928. Hann lærði guðfræði, grísku, trúarbragðasögu og bókmenntir við Háskóla Íslands, Kaupmannahafnarháskóla og háskólann í Aþenu. Sigurður vann lengi við blaðamennsku hérlendis og hjá Sameinuðu þjóðunum. Hann var meðal annars ritstjóri Lesbókar Morgunblaðsins og Samvinnunnar. Hann skrifaði mikið um þjóðfélagsmál og menningu.

Auk eigin frumsömdu verka fékkst Sigurður við ljóðaþýðingar úr erlendum málum og kynningu á íslenskum bókmenntum erlendis.

Yfirlit yfir feril og störf Sigurðar má sjá á bókmenntavef Borgarbókasafns Reykjavíkur.