Sigur Rós heldur Norður og niður

Mynd með færslu
 Mynd: Sigur Rós

Sigur Rós heldur Norður og niður

08.05.2017 - 12:56

Höfundar

Hljómsveitin Sigur Rós stendur fyrir sex daga listahátíð í Hörpu milli jóla og nýárs. Hátíðin nefnist Norður og niður og sveitin kemur sjálf fram á fernum tónleikum í Eldborgarsal.

Á Norður og niður verða tónlistarviðburðir, innsetningar, dans, kvikmyndasýningar og óvæntar uppákomur vina og samverkafólks Sigur Rósar í gegnum tíðina. Samkvæmt heimildum fréttastofu er von á fjölmörgum erlendum listamönnum. Hátíðin verður haldin 26.-31. desember og Sigur Rós kemur fram í Eldborg dagana 27., 28., 29. og 30. desember. Upplýsingar um dagskrá og aðra listamenn sem koma fram eru væntanlegar á næstu vikum. 

Tónleikar Sigur Rósar verða þeir síðustu á 18 mánaða tónleikaferðalagi hljómsveitarinnar um heiminn sem hófst um mitt síðasta ár. Þá verða liðin fimm ár frá því að hljómsveitin kom síðast fram á tónleikum á Íslandi. Tilkynningin um hátíðina kemur í framhaldi af dularfullu 10 sekúndna löngu myndskeiði sem sveitin sendi frá sér á laugardaginn.

Myndbandinu fylgdu engar frekar útskýringar af hálfu hljómsveitarinnar og eldheitir aðdáendur ræddu merkingu þess á Facebook og Twitter. Margir töldu að ný plata væri væntanleg frá sveitinni sem hefur ekki gefið út plötu síðan breiðskífan Kveikur kom út 2013.

Miðasala á tónleika Sigur Rósar hefst 15. maí en þeim sem skrá sig á vef Norður og niður gefst færi á að kaupa miða í forsölu föstudaginn 12. maí.

Á dögunum kom Sigur Rós fram með Fílharmóníusveit LA á Reykvískri tónlistarhátíð í LA.

Tengdar fréttir

Tónlist

Reykjavíkurhátíð í LA „engri annarri lík“

Mynd með færslu
Tónlist

Tónleikar Sigur rósar í Walt Disney höllinni

Tónlist

Sigur Rós sýna Inni til höfuðs stefnu Trump

Klassísk tónlist

Fyrsta sólóplata Kjartans eftir Sigur Rós