Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Sigur Rós blæs til fjögurra daga listahátíðar

27.12.2017 - 22:59
Hljómsveitin Sigur Rós kemur í fyrsta sinn fram í Hörpu þessi jól, og þá dugði ekki eitt kvöld til, heldur blés hljómsveitin til fjögurra daga tónlistarhátíðar. Sigur Rós spilar öll kvöldin.

Tónlistarhátíðin Norður og niður hófst í Hörpu í dag. Fjölmargir innlendir og erlendir tónlistarmenn koma fram á hátíðinni, meðal annars Jarvis Cocker, Peaches, Gus Gus, Mammút, Dimma og Daníel Bjarnason, auk þess sem Sigur Rós heldur tónleika í Eldborg fjögur kvöld í röð. „Það er alltaf mesta pressan þegar maður spilar heima, fyrir vini og vandamenn og fjölskyldu, þannig að við leggjum alltaf upp úr því að hafa eins gott og við getum þegar við komum heim, hafa allt með okkur og allt sjóvið,“ segir Jónsi, söngvari Sigur Rósar.

Hátíðin var formlega sett síðdegis. Áttatíu blásturshljóðfæraleikarar og átján slagverksleikarar frá Skólahljómsveit Austurbæjar og Skólahljómsveit Kópavogs léku í stiganum í Hörpu fyrir gesti og gangandi.

En hvers vegna fjögurra daga tónlistarhátíð? „Það er góð spurning. Þetta eiginlega bara vatt upp sig. Þetta var svona skemmtilega pæling, svo varð hún að raunveruleika og svo varð hún stærri og stærri,“ segir Georg Holm, bassaleikari sveitarinnar. „Og þá var ekki aftur snúið,“ bætir Jónsi við. 

Sigur Rós hefur verið á tónleikaferð um heiminn og spilaði meðal annars í Japan, Suður-Kóreu, Kólumbíu og Nýja-Sjálandi. Sveitin hefur ekki spilað á Íslandi í fimm ár, og kemur í kvöld í fyrsta sinn fram í Hörpu. „Þetta eru lokin á 20 mánaða tónleikaferðalagi, 126 tónleikar. Þannig að við ætlum að loka þessu með stæl,“ segir Georg.

 

alma's picture
Alma Ómarsdóttir
Fréttastofa RÚV