Fram kemur í tilkynningu frá forsætisráðuneytinu að það muni á næstunni kalla saman hagsmunaaðila málsins til að kanna „hvort ásættanleg lausn finnst í málinu, sem tryggir vernd þessara merku menningarminja en stuðlar jafnframt að því að byggingaráform á lóðinni nái fram að ganga í einhverri mynd.“
Borgarlögmaður sendi forsætisráðuneytinu bréf um miðjan þennan mánuð. Þar kom fram að borgaryfirvöld drægju það í efa að Sigmundur Davíð væri hæfur til að taka afstöðu til erindisins.
Borgarlögmaður benti meðal annars á að Sigmundur Davíð hefði tjáð skoðun sína á afgerandi hátt og komið að málinu á fyrri stigum. Var þar meðal annars vísað til breytingar á afstöðu Minjastofnunar eftir að forstöðumaður hennar fór á fund í ráðuneytinu og til skrifa Sigmundar Davíðs á vefsvæði hans.
Kjarninn greindi frá því um helgina að lóðarhafar við hlið Tollhússins teldu að friðun hans muni að lágmarki valda þeim tjóni upp á 2,2 milljarða. Þeir muni sækja það tjón til Minjastofnunar.