Sigríður Björk skipuð ríkislögreglustjóri

Mynd með færslu
 Mynd: Eggert Þór Jónsson - RÚV
Dómsmálaráðherra hefur skipað Sigríði Björk Guðjónsdóttur, lögreglustjóra á höfuðborgarsvæðinu, í embætti ríkislögreglustjóra frá og með 16. mars næstkomandi. Hæfnisnefnd sem skipuð var til að fara yfir og meta hæfni umsókna um embætti ríkislögreglustjóra mat Sigríði hæfasta umsækjenda.

Þetta kemur fram í tilkynningu á vef stjórnarráðsins.

„Sigríður hefur frá árinu 2014 gegnt embætti lögreglustjórans á Höfuðborgarsvæðinu. Áður en Sigríður tók við embætti lögreglustjórans á Höfuðborgarsvæðinu gegndi hún embætti lögreglustjóra á Suðurnesjum, þar áður var hún aðstoðarríkislögreglustjóri frá 2007 til 2008, sýslumaður á Ísafirði 2002-2006 og skattstjóri Vestfjarða frá 1996 til 2002,“ segir í tilkynningunni.

Sjö umsóknir bárust

Haraldur Johannessen lét af störfum sem ríkislögreglustjóri um áramótin, eftir 22 ára starf. Kjartan Þorkelsson, lögreglustjóri á Suðurlandi, gegnir embættinu tímabundið en sótti ekki um að fá að gegna embættinu áfram.

Dómsmálaráðuneytinu bárust sjö umsóknir um embættið, en auk Sigríðar Bjarkar sóttu eftirfarandi um embættið:

Arnar Ágústsson, öryggisvörður

Grímur Grímsson, tengslafulltrúi Íslands hjá Europol

Halla Bergþóra Björnsdóttir, lögreglustjóri á Norðurlandi Eystra

Kristín Jóhannesdóttir, lögfræðingur

Logi Kjartansson, lögfræðingur

Páll Winkel, fangelsismálastjóri

johann's picture
Jóhann Bjarni Kolbeinsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi