Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Sigmundur: Þorði ekki að gera ráð fyrir þessu

Mynd með færslu
 Mynd: Sunna Valgerðardóttir - RÚV
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, segist ekki hafa þorað að gera ráð fyrir jafn afgerandi niðurstöðu á tvöföldu kjördæmisþingi Framsóknarflokksins í dag. Sigmundur hlaut rúmlega sjötíu prósent atkvæða. Hann kveðst skilja ákvörðun Höskuldar Þórhallssonar um að taka ekki sæti á listanum en vonar að þingmaðurinn haldi áfram að starfa með flokknum á öðrum vettvangi.

Fjórir þingmenn Framsóknarflokksins sóttust eftir að leiða lista flokksins í Norðausturkjördæmi: Sigmundur Davíð, Þórunn Egilsdóttir, Líneik Anna Sævarsdóttir og Höskuldur Þórhallsson. Þegar formaður kjörstjórnar las upp úrslitin var ljóst að Sigmundur hafði hlotið yfirburðarkosningu – 170 atkvæði eða 72 prósent. 

Sigmundur ræddi stuttlega við fréttastofu eftir að úrslitin lágu fyrir. Hann segir þau fyrst og fremst ánægjuleg og bendir á að þetta sé mun meiri stuðningur sem hann hafi fengið nú heldur en fyrir síðustu kosningar. Hann segist ekki hafa þorað að vona að úrslitin yrðu jafn afgerandi. „Hins vegar hef ég farið mikið um að undanförnu og heyrt í mörgum Framsóknarmönnum og ég hafði nú skynjað á því ferðalagi mjög sterkan – óvenju sterkan – stuðning.“

Sigmundur segist skilja þá ákvörðun Höskuldar að taka ekki sæti á listanum fyrir komandi kosningar; þetta sé í annað sinn sem hann sækist eftir oddvitasætinu en fái ekki. „Við höfum unnið saman í mörg ár í stjórnmálum og það er alltaf skrýtið að sjá á eftir vinnufélaga en ég vona að hann haldi áfram að vinna með flokknum á öðrum vettvangi.“

Nokkuð hafði verið rætt um að kjördæmisþingið væri ögurstund fyrir Sigmund Davíð, meðal annars í ljósi áskorana nokkurra Framsóknarfélaga á Sigurð Inga um að gefa kost á sér í formannsstólinn og yfirlýsingu Guðna Ágústssonar um að Sigmundur ætti að stíga til hliðar sem formaður flokksins.

Sigmundur Davíð neitar því ekki að þessi afgerandi kosning gefi honum byr undir báða vængi, ekki bara fyrir flokksþingið heldur líka fyrir Alþingiskosningarnar. „Nú er ég með hugann við þær ekkert síður en flokksþingið. En flokksþingið á að geta nýst okkur til að geta komið fram sem samheldinn hópur.“