Sigmundur hélt ekki einungis ræðu heldur var hann jafnframt með glærusýningu. Ræðuna má sjá í heild sinni hér fyrir ofan.
Sigmundur fullyrti að útsendarar slitabúanna hafi njósnað um sig. „Ég veit að það var brotist inn í tölvuna mína. Þeir eltu mig til útlanda,“ sagði Sigmundur. Hann sagði að honum hefðu borist skilaboð frá ónefndum manni þegar hann fór á Íslendingaslóðir í Norður-Dakóta. Sá hafi boðið honum á fund í einangruðum bjálkakofa þar sem þeir áttu að „leysa málin“ hvað varðar slitabúin.
Sigmundur fullyrti að þessir sömu menn hafi elt sig á ráðstefnu í London þar sem þeir hafi boðið honum upp á herbergi. „Þeir voru alltaf kurteisir,“ sagði Sigmundur. Hann sagði að menn, svo sem bandaríski auðkýfingurinn George Soros, myndu beita sínum áhrifum til að tryggja niðurstöðu sem yrði þeim hagstæð. Sigmundur Davíð sagði í viðtali á Útvarpi Sögu í júní að George Soros hafi keypt Panama-skjölin og notað að vild.
Honum var tíðrætt um vald „kerfisins“ en undir það flokkaði hann meðal annars embættismenn, eftirlitsstofnanir og alþjóðlega fjármálakerfið. „Vald kerfisins er að aukast jafnt og þétt. Við erum kominn á þann stað að það er spurning hvort það sé lýðræði eða kerfisfræði,“ sagði Sigmundur.
Sigmundur fór yfir möguleg kosningamál Framsóknarflokksins í komandi kosningum. Hann sagðist vilja rétta hlut eldri borgara, gera stórátak í samgöngum og byggja nýjan Landspítala. „Kerfið segir nei en Framsókn segir já,“ sagði Sigmundur.
Að lokum birti Sigmundur málverk af riddaraliði. „Þetta er stundum tilfinningin, að riddararnir séu að sækja að okkur,“ sagði hann. Hann lagði áherslu á að nauðsynlegt væri fyrir flokkinn að standa saman. „Við erum ekki að fara að láta brjóta okkur niður á hundrað ára afmæli,“ sagði Sigmundur.