Sigmundur segir Báru hafa haft aðstoðarmann

30.03.2019 - 19:42
Mynd: Vilhjálmur Þór Guðmundsson / RÚV
Umræðan um þriðja orkupakka Evrópusambandsins minnir á Icesave-málið sem varð til þess að fólk myndaði andspyrnuhreyfingu gegn stjórnvöldum. Þetta sagði formaður Miðflokksins í ræðu sinni á flokksráðsfundi í dag. Klausturmálið var ekki til umfjöllunar í ræðunni. Formaðurinn segist í viðtali við fréttastofu vera sannfærður um að upptakan hafi verið skipulögð fyrirfram af fleirum en Báru Halldórsdóttur.

Um 120 manns skipa flokksráð Miðflokksins og um 100 mættu á flokksráðsfundinn í Garðaholti í dag. Ræða formannsins fjallaði að stærstum hluta um þriðja orkupakka Evrópusambandsins en Klausturmálið bar ekki á góma.

Mynd: Vilhjálmur Þór Guðmundsson / RÚV

„Það er svolítið sérstakt að vera kominn í þennan slag því það er svo margt sem minnir á fyrri átök og aðdraganda þeirra, átökin um Icesave, átökin um slitabúin, haftamálin ekki hvað síst. Maður upplifir að það sé fullt af fólki úti í bæ sem taki upp á því hjá sjálfu sér vegna þess að það hafi áhyggjur af málinu að að kynna sér það. Menn koma sér í samband við erlenda sérfræðinga, mynda hópa, mynda andspyrnuhreyfingu í rauninni gegn því sem stjórnvöld eru að gera. Yfirráð yfir orkumálum á Íslandi munu ef af verður færast til fjarlægrar erlendrar stofnunar og embættismanna þar,“ sagði Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins í ræðu sinni í dag. 

Þessi túlkun þín á þessu er algjörlega í andstöðu við það sem ríkisstjórnin virðist telja, hvernig stendur á því?

„Ja, annað hvort veit ríkisstjórnin ekki út á hvað þetta gengur eða hún er viljandi að blekkja fólk,“ segir Sigmundur í samtali við fréttastofu.

Fréttablaðið birti í dag grein Sigmundar Davíðs þar sem hann segir það ekki hafa verið tilviljun að Bára Halldórsdóttir var stödd á Klausturbar þar sem hún tók upp samræður þingmannanna sex. Á hverju byggirðu það?

„Það byggist bara á myndefni af staðnum. En nú mun þetta vera rannsakað áfram. Við höfum farið fram á enn frekari gögn og vonumst til þess að það komi í ljós hverjir stóðu að undirbúningi og skipulagningu málsins,“ segir Sigmundur.

En þú ert alveg sannfærður um að einhver hafi undirbúið þetta með henni?

„Já já, það er eitt af því sem er ekki hægt annað en að álykta af því að manneskjan mæti þarna undirbúin á staðinn og hefji þegar aðgerðir,“ segir Sigmundur.

Nú hefur traust á Alþingi minnkað talsvert. Það var 30% í fyrra og er 18% núna. Flestir tala um Klausturmálið sem ástæðuna fyrir því. Finnst þér það ekki miður?

„Auðvitað er miður að það sé lítið traust á Alþingi. Það er hins vegar enn þá minna traust á borgarstjórninni og féll enn þá meira þó að borgarfulltrúar hafi ekki komið þar við sögu nema að mjög litlu leyti,“ segir Sigmundur.

kristins's picture
Kristín Sigurðardóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi