Sigmundur hefur ekki íhugað stöðu sína

30.11.2018 - 18:27
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
„Þetta var þeirra ákvörðun,“ segir Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, um að þeir Gunnar Bragi Sveinsson og Bergþór Ólason taki sér leyfi frá þingstörfum í kjölfar Klaustursmálsins. Sigmundur Davíð var í samtali á Bylgjunni síðdegis í dag.

Sigmundur Davíð segist ekki hafa íhugað sína eigin stöðu vegna málsins. „Nei ég hef ekki velt því fyrir mér. Ef sú væri raunin, að menn stigju til hliðar eftir svona umræður, væri orðinn þunnur bekkurinn á Alþingi. Með því er ég ekki að réttlæta það að hafa setið þennan fund og aðra svona fundi.“

Sigmundur var einn fjögurra þingmanna Miðflokksins sem sátu að sumbli á barnum Klaustri 20. nóvember síðastliðinn. Fjallað hefur verið um hljóðupptökur af barnum þar sem þingmennirnir fjórir auk tveggja þingmanna Flokks fólksins töluðu á niðurlægjandi hátt um fólk. Gunnar Bragi og Bergþór eru þeir einu sem hafa sagst ætla að stíga til hliðar vegna málsins.

„Þeir vilja með þessu sýna að þeir séu miður sín yfir þessu. Ég er alls ekki þeirrar skoðunar að svona tal hafi nokkurn tíma verið ásættanlegt. Maður skammast sín ekki síst fyrir að hafa ekki gripið inn í,“ sagði Sigmundur Davíð meðal annars.

Hann sagði þetta ekki í fyrsta skipti þar sem hann hefur setið svona „fund“ þar sem talað er illa um fólk. Hann sjái eftir því að hafa ekki gripið inn í og stöðvað umræðurnar. „Svo kemur keppni í menn um að orða hlutina með sem grófustum hætti. Það er það sem maður tekur kannski frá þessu, þetta er ekki einstakt tilvik sem kemur upp þarna.“

Hann segir orð þeirra sem sátu á barnum ekki lýsa innræti þeirra. Þvert á móti hafi orð þeirra komið þeim sjálfum á óvart þegar upptökurnar birtust. „Vandinn er að þetta er hluti af kúltúrnum í pólitíkinni,“ segir Sigmundur Davíð.

Spurður hvort það verði hnökrar á eðlilegum þingstörfum segir Sigmundur það geta gerst. „Það er viðbúið. Vonandi verður það bara til þess að það verði breyting á þessu almennt. Mér hefur reyndasr fundist mjög skrítið að fólk sem ég hef hlustað á segja hreint ótrúlega hluti um félaga sína, birtast núna fullir vandlætingar yfir þessu tilviki sem tekið var upp. Ég vona ða það fólk muni þó sjálft breyta því hvenrig það nálgast hlutina. Við munum í það minnsta gera það í mínum flokki.“