Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Sigmundur grafi undan efnahagslegu fullveldi

25.03.2016 - 19:48
Svandís Svavarsdóttir í þingsal Alþingis.
 Mynd: Þórgunnur Oddsdóttir
Forsætisráðherra grefur undan efnahagslegu fullveldi Íslands með því að styðja við starfsemi skattaskjóla. Þetta segir Svandís Svavarsdóttir, þingmaður Vinstri grænna. Það sé óásættanlegt á sama tíma og Ísland hafi ásamt ríkjum OECD barist gegn tilvist skattaskjóla.

Eiginkona Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, forsætisráðherra, upplýsti um það í síðustu viku að hún ætti félag erlendis, sem síðar kom í ljós að er aflandsfélag á Tortóla sem lýsti kröfum í slitabú föllnu bankanna fyrir röskan hálfan milljarð króna. Fréttablaðið birti í gær forsíðuviðtal við Sigmund Davíð þar sem hann segir meðal annars að sér hafi ekki borið siðferðisleg skylda til að upplýsa um félagið. 

„Eftir því sem þessu máli vindur fram og maður hugsar það betur, þá finnst mér það kannski vera það sem er alvarlegast í þessu máli að OECD hefur um langt árabil barist sérstaklega gegn tilvist skattaskjóla. Og Ísland hefur tekið þátt í því að undirrita sérstaka áætlun eða áform um það að taka þátt í áætlun til þess að stemma stigu við þessari starfsemi,“ segir Svandís Svavarsdóttir, þingmaður Vinstri grænna.

Svandís segir að starfsemi skattaskjóla megi líkja við efnahagslegt svarthol sem ógni og grafi undan ríkjum sem vilji viðhalda efnahagskerfi sem byggi upp innviði og velferðarkerfi þeirra.

„Og nú er það að mínu mati svo, og ég held að það hljóti að blasa við öllum sem vilja skoða það, að það er óásættanlegt að á sama tíma og við ritum undir slík plön, að forsætisráðherra ríkisins, íslenska ríkisins, taki þátt í því að styðja starfsemi af þessu tagi á sama tíma, og þar með að grafa undan efnahagslegu fullveldi Íslands.“

Nú er það reyndar eiginkona hans sem er með þessa peninga þarna, finnst þér það ekki skipta máli?

„Nei við erum algjörlega komin framhjá þeim punkti sem var hluti af hans málsvörn allra fyrstu dagana. Auðvitað er þetta sameiginlegur efnahagur þeirra.“

Rannsóknarnefnd eða siðaráð

Svandís vill að Alþingi grípi til aðgerða vegna málsins.

„Hér hafa verið uppi umræður um vantrauststillögu en það eru fleiri þættir sem koma upp í hugann. Eins og til dæmis það að við alþingismenn allir samþykktum núna á dögunum siðareglur sem taka gildi núna í haust. Það kemur fram þar, í siðareglunum, að Alþingi getur sett á stofn siðaráð til þess að fara yfir siðferðileg álitamál. Og þar á meðal mál eins og þessi. Og mér finnst það koma vel til greina að Alþingi samþykki að setja slíkt ráð á stofn þótt reglurnar gangi ekki í gildi fyrr en í haust. Og jafnvel að taka afstöðu til þess að reglurnar taki gildi nú þegar til þess að kveða upp úr með það. Siðaráð gæti þá farið í saumana á þessu máli. Og svo kæmi auðvitað til greina að setja á stofn sérstaka rannsóknarnefnd um þetta mál. Við höfum nú gert það af minna tilefni,“ segir Svandís.

Ekki hefur náðst í Bjarna Benediktsson, formann Sjálfstæðisflokksins í dag, en hann er á Flórída.