Sigmundur geri það eina rétta í stöðunni

04.04.2016 - 08:28
Mynd: Kastljós / RÚV
Helgi Hjörvar, þingflokksformaður Samfylkingarinnar, og Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Pírata, telja að Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra verði að segja af sér, þar sem trúverðugleiki hans og þjóðarinnar sé hruninn.

Þetta kom fram í máli þingmannanna, sem sátu fyrir svörum í Morgunútvarpi Rásar 2 í morgun, ásamt stjórnarþingmönnunum Ásmundi Einari Daðasyni og Guðlaugu Þór Þórðarsyni. Þar voru til umræðu upplýsingar sem fram komu í Kastljósinu í gær.

Helgi segir að þingflokkur Samfylkingar hafi óskað eftir því við forseta Alþingis að hann aflýsi fyrirhuguðum nefndarfundum í dag, svo flokkarnir geti fundað um stöðu mála. 

„Ég held að það sé óhætt að segja það að þingmenn séu bara almennt slegnir yfir því sem að hér hefur komið fram,“ sagði Helgi Hjörvar í Morgunútvarpinu. „Það held ég að megi hverjum manni vera augljóst að forsætisráðherra er algjörlega rúinn trausti almennings hér í landinu og raunar um heim allan og teldi langeðlilegast að hann bara stígi til hliðar.“

Ásmundur Einar, sem er þingflokksformaður Framsóknarflokksins, býst við að forsætisráðherra sem og aðrir ráðherrar sem voru til umfjöllunar í Kastljósinu, Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra og Ólöf Nordal innanríkisráðherra, stígi fram í dag og skýri sína hlið mála. Hann segir þó að efnislega hafi ekkert nýtt komið fram í Kastljósinu í gær varðandi mál forsætisráðherra. 

Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Pírata, er því ósammála. „Það kemur náttúrulega fram þarna að daginn áður en lög taka gildi um skattaskjól, þá breytir forsætisráðherra eignarhaldinu sínu fyrir dollar á Wintris, það var nýtt,“ sagði Birgitta í Morgunútvarpinu á Rás 2. “Það er mikill ábyrgðarhluti að forsætisráðherra geri það eina rétta í stöðunni, trúverðugleiki landsins er hruninn. Almenningur hérna heima er bara í losti og fólki er verulega brugðið, það má segja að það hafi orðið siðferðislegt hrun í gær. Ef fólk áttar sig ekki á því hérna heima, hversu laskaður trúverðugleiki landsins er eftir þessar upplýsingar, þá held ég að það sé bara eitthvað að.“

 

 

Ægir Þór Eysteinsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi