Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Sigmundur Davíð: „Viljinn allt sem þarf“

26.07.2016 - 04:00
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Ríkisstjórnin er einstaklega vel í stakk búin til þess að framfylgja seinni hluta fjögurra ára áætlunar sinnar. Þetta segir Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, í grein sem birtist í Morgunblaðinu í morgun. Fjögurra ára planið hafi gengið upp til þessa og nú sé viljinn allt sem þarf til að klára það.

Sigmundur Davíð segir áætlun ríkisstjórnarinnar hafa skipst í tvennt. Fyrri áfanginn snerist um hvernig taka átti á þeim vanda sem beið Íslands, seinni hlutinn um hvernig standa ætti að sókn og uppbyggingu sem ætti að taka við. Á síðustu þremur árum hafi ríkisstjórnin náð einstökum árangri í samanburði við önnur þróuð ríki. Hann ítrekar að kosningum verði ekki flýtt nema mikilvæg verkefni ríkisstjórnarinnar verði kláruð.

Nú eru forsendur til að klára mikilvæg verkefni í seinni hluta fjögurra ára plansins að sögn Sigmundar Davíðs. Ótækt sé að klára þau ekki. Sum verkefnanna snúist að framhaldi vinnu við að endurbæta þær reglur sem samfélagið starfar eftir. Önnur að fjárfestingu og því að nýta efnahagslegan árangur til uppbyggingar.

Sigmundur Davíð nefnir áherslu ríkisstjórnarinnar á að bæta kjör eldri borgara sem dæmi um sóknarverkefni. Pétursnefndin svokallaða hafi skilað af sér tillögum um mikilvægar úrbætur í lífeyriskerfinu sem. Þá segir hann eitt af mikilvægustu verkefnum ríkisstjórnarinnar að tryggja íbúum Íslands búsetujafnrétti. Það er að vinna að bættum fjarskiptum um allt land, samgöngubótum, endurreisn heilbrigðis- og menntakerfis á landsbyggðinni og tryggja forsendur fyrir eðlilegri atvinnusköpun.

„Þessi ríkisstjórn verður að skila áþreifanlegum árangri fyrir byggðir landsins. Klári hún það ekki mun önnur ríkisstjórn ekki gera það. Skaðinn af því að vanrækja stærstan hluta landsins yrði mikill fyrir landið allt,“

Þá segir hann óþarfa að telja upp fjölmarga mikilvæga innviði sem nauðsynlegt sé að halda áfram að bæta. Meiri peningar séu tiltækir í verkefnin og hægt sé að hugsa uppbygginguna upp á nýtt, þá sérstaklega í heilbrigðismálum.

Að lokum nefnir Sigmundur Davíð að ríkisstjórnin verði að laga fjármálakerfið á Íslandi og „losa samfélagið úr viðjum verðtryggingar.“ Auðvelda verði ungu fólki að fá ódýrari óverðtryggð lán fyrir húsnæði. Allt sé nú til reiðu fyrir alla uppbygginguna, viljinn sé allt sem þarf til að klára það.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV