Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Siglingar milli Reykjavíkur og Akraness á ný

10.02.2017 - 12:44
Mynd með færslu
 Mynd: Einar Rafnsson - RÚV
Borgarráð Reykjavíkur og bæjarráð Akraneskaupsstaðar hafa samþykkt tilraunaverkefni með siglingar milli sveitarfélaganna. Auglýst verður eftir rekstraraðila fyrir 50-100 manna ferju, sem siglir þrisvar sinnum á dag, milli Akraness og Reykjavíkur frá 1. júní til 1. október, með möguleika á framlengingu um eitt ár.

Áður hefur verið auglýst eftir tilboðum í siglingar milli Reykjavíkur og Akraness en þá fengust ekki nógu góð tilboð, að sögn Regínu Ásvaldsdóttur, bæjarstjóra Akraness, sem var viðmælandi morgunútvarps Rásar 2 í morgun. 

Regína segir að litið sé á siglingarnar sem almenningssamgöngur fyrir íbúa en ekki sérstaklega fyrir ferðamenn. Hún sló það ekki af borðinu að ferjan fengi nafnið Akraborgin. 

Fulltrúi Framsóknar og flugvallarvina í borgarráði sat hjá við afgreiðslu málsins í borgarráði og vísaði í bókun frá 28. janúar þar sem segir að ekki sé vilji til að fjármunir skattborgara í Reykjavík fari í tilraunaverkefni sem þetta. Regína segist reikna með því að fyrst um sinn þurfi að greiða með verkefninu en vonast til að það geti orðið sjálfbært í framtíðinni. 

Samkvæmt nýlegri könnun Gallup segjast 24 prósent Skagamanna fara til höfuðborgarsvæðisins til náms eða vinnu og um helmingur þeirra segist hafa áhuga á að nýta sér flóasiglingar, væru þær í boði. Tæplega helmingur er tilbúinn til að greiða fyrir það 1500 krónur.