Athugið þessi frétt er meira en 8 ára gömul.

Sigið í Bárðarbungu er hætt

11.04.2015 - 13:35
Mynd með færslu
 Mynd: Lára Ómarsdóttir - RÚV
Eftirlitsflug yfir Bárðarbungu staðfestir að sigið í Bárðarbungu er hætt. Sigkatlar sem mynduðust í jöklinum sökum jarðhita, síga enn en þó hægar er áður. Magnús Tumi Guðmundsson, jarðeðlisfræðingur segir þetta góðar fréttir. Ekki hefur verið hægt að fljúga yfir jökulinn í tvo mánuði vegna veðurs.

 

 

„Það var mjög gott að ná þessum veðurglugga sem var nú bara nokkrir klukkutímar,“ segir Magnús Tumi.

Hann segir að nú sé hægt að staðfesta það sem mælar hafa sýnt að sigið er hætt í Bárðarbungu og þessum jarðhræringum er lokið í bili. „Já, þetta staðfestir það sem við svo sem vissum fyrir að það fellur alveg á því að sigið er hætt og það er ekkert nýtt sem við verðum vör við hvað svo sem síðar verður.“

Jarðhitinn hafi haldið áfram og sigkatlarnir haldi áfram að dýpka. „En hægar en áður sem verða að teljast góðar fréttir því það eru þá meiri líkur á því að það fari ekki af stað ný jarðhitasvæði sem valda eða myndu búa til hugsanlegan vanda með hlaupum í ár svipað og Skaftárkatlar gera en við vitum ekki hvað gerist í framhaldinu en það er ekkert að gerast neitt dramatískt og það eru góðar fréttir,“ segir Magnús Tumi. 

larao's picture
Lára Ómarsdóttir