Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Siggi séní sá fyrir sér Aþenu norðursins

Mynd: Þjóðminjasafn Íslands / Ruv  / Þjóðminjasafn Íslands

Siggi séní sá fyrir sér Aþenu norðursins

15.12.2017 - 10:36

Höfundar

Málarinn og menningarsköpun er heiti nýrrar bókar um Sigurð Guðmundsson málara (1833-1874) og Kvöldfélagið sem starfrækt var í Reykjavík laust eftir miðja 19. öld.

Höfundar efnis í bókinni eru fjölmargir en ritstjórar hennar eru Karl Aspelund og Terry Gunnell. Það eru Þjóðminjasafn Íslands og bókaútgáfan Opna sem gefa bókina út. Víðsjá ræddi við Terry og einn úr hópi höfundanna, Svein Yngva Egilsson bókmenntafræðing.

Séní með stórar hugmyndir

Sigurður Guðmundsson, Sigurður Málari eða Siggi Séni eins og vinir hans kölluðu hann á sínum tíma og vinir hans í dag kalla hann enn, fæddist 9. mars árið 1833 í Skagafirði. Sextán árum síðar var þessi hæfileikapiltur kominn til Kaupmannahafnar að læra húsamálun og skreytilist en hann gafst upp á vistinni hjá meistara sínum eftir aðeins tíu daga. Fljótlega tók við myndlistarnám, einkakennsla og undirbúningsnám fyrir Konunglegu Listaakademíuna þar sem Sigurður fékk síðan inngöngu árið 1851.

Draumar ungra manna

Tíu árum síðar hafði Sigurður, heimkominn, tekið þátt í stofnun Kvöldfélagsins svokallaða sem var rómað leynifélag með stóra drauma. Terry Gunnell segir að það hafi verið mikið líf í félaginu á þeim fáu árum sem það var starfrækt frá 1861-1874. Fundarbækurnar, sem varðveittar eru í Landsbókasafni, séu merkileg heimild um unga menn sem vildu landi sínu vel. 

Tilgangur félagsins er að reyna að vekja innlent mannlíf, sér í lagi í skáldskap og fögrum mennum.

„Þessar bækur geyma drauma ungra manna,“ segir Terry Gunnell. „Draumarnir snérust um að breyta íslensku samfélagi úr „barbaríi“ og yfir í siðmenningu. Félagið byrjar á því að ræða ýmis málefni en verður síðan pólitískara þegar á líður. Hér eru erlendar hugmyndir um kommúnisma, hugmyndir um menntun kvenna og nauðsyn þess að koma upp stofnunum á borð við Forngripasafn og Þjóðleikhús sem myndu sýna menningu landins og ala fólk upp um leið.“

Mynd með færslu
 Mynd: Háskóli Íslands / RUV samsett
Þeir Terry og Sveinn Yngvi eru miklir vinir Sigga séní enn í dag.

Sveinn Yngi Egilsson segir að Kvöldfélagið hafi fljótlega snúist upp í það að vera eins konar málfundarfélag. „Félagsmenn fóru alla leið í þessu. Mönnum voru sett fyrir ákveðin umfjöllunarefni til að ræða og þetta var nánast eins og á doktorsvörn. Þarna var frummælandi og tveir andmælendur og svo einn sem stjórnaði öllu saman. Þeir ræða um bókmenntir, menningu, þjóðhætti og fleira en pólitíski tónninn þyngist eftir því sem á líður. Stjórnskipulag, stéttabarátta og kvenréttindi verða þá meðal þess sem þeir ræða.“

Leynifélag í smábæ

Terry Gunnell segir kannski ótrúlegt að leynifélag hafi geta fundað í Aðalstræti Reykjavíkur á þessum tíma, en þannig var það nú samt. „Bara sem dæmi má nefna þegar Matthías Jochumsson, Sigurður og Jón Árnason gista saman í pínulitlu herbergi í Reykjavík. Þá er Matthías að semja Lofsöng (þjóðsönginn), Jón Árnason að safna þjóðsögum og ævintýrum og Sigurður að hanna þjóðbúninginn, búa til lifandi málverk (fr. Tableaux vivant) og starfa að leikhúsi.“

Já, þetta er sannarlega rómantískt og dálítið eins og sena úr óperunni La Bohème.  

Mynd með færslu
 Mynd: Landsbókasafn
Fundarbækur Kvöldfélagsins eru varðveittar í Landsbókasafni

Mikill metnaður

„Ég undrast að hann hefur nánast eins og tilbúna dagskrá um það hvað þurfi að gera til að byggja upp íslenska þjóð og íslenska menningu,“ segir Sveinn Yngvi um hinn unga Sigurð sem lést fyrir aldur fram aðeins 41 árs þjóðhátíðarárið 1874. „En svo finnst mér líka svo merkilegt hvað þessi hópur sem stóð að kvöldfélaginu var meðvitaður um að verða upplýstir nútímamenn. Þeir ræða til dæmis kvenréttindi og í máli þeirra er oft siðferðilegur undirtónn. Þeir vilja verða þátttakendur í lýðræðislegum skoðannaskiptum.“

Háborg í norðri

Terry Gunnell segir að endalaust margar áhugaverðar hliðar megi finna á Sigurði Guðmundssyni. „Hann er farinn að íhuga heita vatnskerfi, útivistarsvæði í Laugardal, vegakerfi, turn uppi á Skólavörðustíg og styttu af Ingólfi Arnarsyni. Margt sem við sjáum í kringum okkur í dag er að finna í hans skrifum. Hér er ólærður Skagfirðingur sem vill búa til Aþenu norðursins í Reykjavík. En nafnið á legsteininum í Hólavallakirkjugarði er vitlaust skrifað, af Dana, og það ætti að vera stytta af manninum á góðum stað, en svo er ekki. Sigurður er hins vegar ánægður með bókina, ég fann það sterkt í kirkjugarðinum um daginn.“

Mynd með færslu
 Mynd: Landsbókasafn
Upphaf laga Kvöldfélagsins sem í frystu hét Leikfélag andans.

Viðtalið við Sigurð Yngva og Terry má heyra hér í spilaranum fyrir ofan. Þar ræða þeir fleiri hliðar á Sigurði Guðmyndssyni og meðal annars hugmyndir til að auka veg hans og virðingu hér og nú. Tónlistin í innslaginu kemur úr klarinettukvintett Johannesar Brahms, sem var fæddur sama ár og Sigurður. Reginald Kell og Busch kvartettinn leika.