Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Sigfús Ingi nýr sveitarstjóri í Skagafirði

Mynd með færslu
 Mynd: Skagafjörður
Byggðarráð Skagafjarðar hefur samþykkt að ráða Sigfús Inga Sigfússon sem nýjan sveitarstjóra úr hópi fjórtán umsækjenda. Sigfús Ingi hefur starfað sem verkefnastjóri í atvinnumálum hjá bænum en var þar áður framkvæmdastjóri Framsóknarflokksins og enn áður aðstoðarmaður Valgerðar Sverrisdóttur í utanríkisráðuneytinu.

Ráðning Sigfúsar var eina málið á dagskrá byggðarráðsfundar í morgun. Í fundargerð kemur fram að hann taki til starfa 22. ágúst. Meirihluti Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins í bænum hélt í kosningunum í vor en Ásta Björg Pálmadóttir, sem verið hefur sveitarstjóri síðan 2010, gaf ekki kost á sér í starfið áfram.

Sigfús Ingi er 42 ára, með BA-gráðu í sagnfræði frá Háskóla Íslands og MBA-gráðu frá Stirling-háskóla í Skotlandi.

stigurh's picture
Stígur Helgason
Fréttastofa RÚV