Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Síðustu læknarnir í Aleppo kalla á hjálp

11.08.2016 - 04:55
epa05461522 Syrian protesters carry placards with arabic words reading (Stop the war in Syria and Save Aleppo) where they demonstrate against the bombing of Aleppo and against the war in Syria, on the Place of martyrs in down town Beirut ,Lebanon 07
Sýrlenskir flóttamenn í Beirút mótmæla stríðsrekstrinum í heimalandi sínu Mynd: EPA
Síðustu læknarnir sem halda út í þeim hluta Aleppo, sem er á valdi uppreisnarmanna, biðla til Baracks Obama, Bandaríkjaforseta, um að koma þeim 250.000 manns sem þar eru innilokuð til bjargar með því að koma á flugbanni yfir borginni til að koma í veg fyrir frekari loftárásir. 29 læknar undirrita bréfið. Þar segir að haldi loftárásir Sýrlandshers og Rússa á sjúkrastofnanir í þessum hluta borgarinnar áfram af sama offorsi og síðustu daga og vikur verði engar slíkar uppistandandi eftir mánuð.

Í bréfi læknanna segir að á þeim fimm árum sem liðin eru frá því að borgarastríðið í landinu hófst hafi þeir horft upp á óteljandi sjúklinga, vini og samstarfsmenn deyja ofbeldis- og kvalafullum dauðdaga. „Heimurinn hefur staðið hjá og talað um hve 'flókið' ástandið í Sýrlandi sé, en lítið gert til að vernda okkur. Nýleg tilboð frá stjórninni og Rússum um að yfirgefa borgina hafa hljómað eins og lítt dulbúnar hótanir í eyrum íbúa - flýja núna, en horfast ella í augu við hvaða örlög?"

Sprengjum varpað á 42 spítala og sjúkrastofnanir

Læknarnir fullyrða að sprengjum hafi verið varpað á 42 spítala og heilbrigðisstofnanir í Sýrlandi, þar á meðal á 15 sjúkrahús þar sem þeir hafi verið að störfum. „Fyrir tveimur vikum köfnuðu fjögur nýfædd ungabörn eftir að sprenging rauf súrefnisflæðið í hitakassa þeirra. Þau tóku andköf af súrefnisskorti og líf þeirra leið undir lok áður en það hafði í raun byrjað.“

Læknarnir 29 segjast hafa svarið þess eið að hjálpa þeim sem hjálpar eru þurfi og minna Obama á að sinna einnig sinni skyldu. Þeir frábiðja sér tár, samúð eða bænir. Það sem þeir, en þó enn frekar almenningur í Aleppo, þurfi á að halda er að bundinn verði endir á loftárásirnar og umsátrið, sem ógni öllu lífi í borginni. 

Rússar boða 3 tíma vopnahlé - Sameinuðu þjóðirnar segja 48 tíma lágmark

Rússar lýstu því yfir í gær, að þeir hygðust gera allt sem í þeirra valdi stæði til að tryggja minnst þriggja klukkustunda bardagahlé á degi hverjum frá og með deginum í dag, frá tíu að morgni til eitt eftir hádegi að staðartíma, svo koma megi hjálpargögnum til almennings í borginni. 

Yfirlýsing Rússa kom í framhaldi af harkalegri gagnrýni Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna og tveggja háttsettra yfirmanna á sviði mannúðarmála og hjálparstarfs SÞ í Sýrlandi á framgöngu stríðsaðila í Aleppo og nágrenni. Þar eru hátt í tvær milljónir manna í bráðri lífshættu, ekki síst vegna hættunnar á að sóttkveikjur nái sér á strik í stöðnu og fúlu vatni í borginni eftir að vatnsveitan gaf upp öndina í miðri hitabylgju.

Talsmenn þessara stofana brugðust strax við þessari yfirlýsingu Rússa og sögðu þriggja klukkustunda hlé hvergi nærri nóg til að koma öllum þessum fjölda fólks til hjálpar og ítrekuðu kröfu Barnahjálparinnar um minnst 48 klukkustunda vopnahlé í viku hverri. Engin leið sé fyrir starfsmenn hjálparstofnana að komast til Aleppo, afferma bíla sína og komast frá borginni aftur á þremur klukkustundum. 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV