
Ríkisstjórnin samþykkti á fundi sínum í morgun siðareglur ráðherra í samræmi við lög um Stjórnarráð
Íslands. Siðareglurnar byggjast á siðareglum sem settar voru árið 2011. Þó hafa verið gerðar á þeim
ákveðnar lagfæringar í samræmi við núgildandi lög um Stjórnarráð Íslands, auk orðalagsbreytinga
með hliðsjón af nýjum siðareglum þingmanna, einkum er varðar hagsmunaárekstra.
Úr fréttatilkynningu forsætisráðuneytisins.
Umboðsmaður mælist til að siðareglur verði settar
Í ljós kom í ágúst 2014 að ríkisstjórnin hefði ekki sett sér siðareglur fyrir ráðherra eins og lög kveða á um. Síðasta ríkisstjórn gerði það og birti þær sérstaklega. Umboðsmaður Alþingis sendi þáverandi forsætisráðherra, Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni, fyrirspurn vegna málsins. Forsætisráðherra svaraði á þá lund að litið væri svo á að siðareglur síðustu ríkisstjórnar væru áfram í gildi en til greina kæmi að einfalda þær. Í janúar í fyrra beindi umboðsmaður svo þeim tilmælum til forsætisráðherra að siðareglur verði settar um ráðherra.