Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Siðanefnd Alþingis fundaði um Klausturmálið

04.12.2018 - 12:23
Mynd með færslu
 Mynd: Freyr Arnarson - RÚV
Formaður siðanefndar Alþingis segir að nefndin setji sér enga tímaramma til að fjalla um Klausturmálið svokallaða. Nefndin kom saman til fundar í morgun en þetta er í fyrsta sinn sem hún er virkjuð til að fjalla um mögulegt brot á siðareglum þingmanna.

 

Forsætisnefnd Alþingis ákvað í gær að hefja skoðun á Klausturmálinu og vísa málinu til siðanefndar Alþingis. Þrír eiga sæti í nefndinni en helsta hlutverk hennar er að fjalla um meint brot á siðareglum þingmanna. 

Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir formaður nefndarinnar segir í samtali við fréttastofu að nefndin hafi tekið stuttan undirbúningsfund í morgun. Hún segir að nefndin hafi ekki sett sér tímaramma í þessu máli en skrifstofa Alþingis mun á næstunni aðstoða nefndina við að afla upplýsinga. Síðar verði svo kallað eftir greinargerðum og skýringum frá þeim þingmönnum sem í hlut eiga. 

Nefndin var stofnuð árið 2016 en þetta er í fyrsta sinn sem hún er virkjuð til að fjalla um mögulegt brot á siðareglum.

Í erindi sem átta þingmenn úr fjórum flokkum sendu forsætisnefnd Alþingis í gær er sérstaklega vísað í 5. og 7. grein siðareglna þar sem meðal annars er fjallað um háttsemi þingmanna og mikilvægi þess að þeir kasti ekki rýrð á Alþingi eða skaði ímynd þess með framkomu sinni. Þá er einnig vísað í f-lið fimmtu greinar þar sem segir að þingmenn skuli ekki nýta opinbera stöðu sína til persónulegs ávinnings fyrir sig eða aðra. 
 

 

Höskuldur Kári Schram
Fréttastofa RÚV