Siciliano úr Columbine

Mynd: RÚV / RÚV

Siciliano úr Columbine

31.08.2018 - 19:06

Höfundar

Siciliano úr Columbine (1982) eftir Þorkel Sigurbjörnsson

Þorkell Sigurbjörnsson sagði eitt sinn svo frá tilurð flautukonsertsins Kólumbínu: „Árið 1976 samdi ég leikhústónlist við uppfærslu Þjóðleikhússins á Kaupmanninum í Feneyjum. Þar gerðist leikurinn í Feneyjum 18. aldar, og stefin áttu að bregða upp stemningu þess tíma. Þegar sýningum lauk héldu sum stefin áfram að hljóma í höfðinu en ég fann ekkert tilefni til að gera meira úr þeim. Árið 1982 bað Manuela Wiesler mig um að semja léttúðugt divertimento fyrir hana og strengjasveit í Falun í Svíþjóð. Einleikshlutverkið mátti vera krefjandi en strengjaspilið fremur einfalt. Hér var kærkomið tækifæri. Þannig varð Kólumbína til, úr bútum úr Kaupmanns-tónlistinni og með daðrandi látbragð gamanleiks-fígúrunnar í huga.“ Konsertinn er eitt mest flutta hljómsveitarverk Þorkels og ekki síst er það miðkaflinn sem nýtur hylli flytjenda og áheyrenda – ljúfur siciliano eða dans frá Sikiley, í hófsömum stíl nýklassíkur. 


Sinfóníuhljómsveit Íslands og RÚV tóku í þriðja sinn saman höndum og gáfu landsmönnum kost á að ráða efnisskránni á fyrstu tónleikum hljómsveitarinnar á nýju starfsári. Í þetta sinn gafst almenningi færi á að velja uppáhalds íslensku tónsmíðina sína í tilefni 100 ára fullveldisafmælis. Hljómsveitarstjóri var Daníel Bjarnason.