Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Seyðisfjarðarlisti sigrar og brettir upp ermar

Mynd með færslu
 Mynd: Rúnar Snær Reynisson - RÚV
„Við erum á gleðiskýi. Þetta er mjög afdráttarlaus kosning og mikið traust sem Seyðfirðingar hafa sýnt okkur. Þetta eru skýr skilaboð og við erum þakklát og hrærð,“ segir Hildur Þórisdóttir, oddviti Seyðisfjarðarlistans sem vann stórsigur í kosningunum í gær. Listinn náði hreinum meirihluta og velti úr sessi meirihluta Sjálfstæðismanna og Framsóknar.

Boða breytta stjórnsýslu

„Við hittumst á morgun og þá verða fyrstu mál á dagskrá að ræða stjórnsýsluna og verkefni sem eru fram undan þar. Við viljum taka út bæjarráð og vera bara með 7 manna bæjarstjórn. Við ætlum að rýna vel í nefndir og viljum valdefla þær. Þær hafa einungis verið ráðgefandi og við viljum sjá hvernig við getum breytt því þannig að þær verði verkefna- og árangursdrifnari. Þannig fáum við meira út úr nefndarstörfum bæjarins,“ segir Hildur.

Auglýsa eftir bæjarstjóra og hefja uppbyggingu

Hildur segir að Seyðisfjarðarlistann vilji auglýsa eftir nýjum bæjarstjóra í staðinn fyrir Vilhjálm Jónsson, oddvita Framsóknar.  „Við viljum manneskju sem hefur hefur leiðtogahæfileika og framtíðarsýn. Það er ljóst að við viljum fá nýja manneskju í brúna. Vilhjálmur hefur staðið sig vel á margan hátt og er klár í fjármálum en við teljum að kominn sé tími á öðruvísi áherslur núna.  Við erum að fara að byggja upp bæinn eftir langvarandi aðhald í fjármálum,“ segir Hildur.

Skoða kosti og galla sameingingar

Sameining sé eitt af stóru málunum í upphafi kjörtímabilsins. Farið verði í greiningarvinnu á kostum og göllum sameiningar við önnur sveitarfélög.  „Hvað við græðum og hvað við getum misst. Upplýsingaöflun er eitt af fyrstu verkefnunum þannig að það er ýmisleg skemmtilegt fram undan,“ segir Hildur Þórisdóttir, oddviti Seyðisfjarðarlistans.

Seyðisfjarðarlistinn fékk 53,3% og fjóra menn, Sjálfstæðisflokkur 30,8% og tvo menn og Framsóknarfélag Seyðisfjarðar og frjálslyndra 15,9% og einn mann.

 

 

 

 

runarsr's picture
Rúnar Snær Reynisson
Fréttastofa RÚV