Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Seyðfirðingar þurfa göng og húsnæði

Mynd með færslu
 Mynd: Rúnar Snær Reynisson - RÚV
Skortur á húsnæði stendur Seyðisfirði fyrir þrifum að mati frambjóðenda þar í sveitarstjórnarkosningunum. Brýnast sé að bæta úr því og halda áfram ötulli baráttu fyrir göngum undir Fjarðarheiði.

Elvar Snær Kristjánsson, er nýr leiðtogi Sjálfstæðisflokksins en Arnbjörg Sveinsdóttir, núverandi oddviti skipar 4. sæti listans. Hann segir ljóst að þótt samgöngumál og Fjarðarheiðargöng verði baráttumál áfram þá þurfi að finna lausnir á húsnæðisvandanum í bænum. Í fyrsta sinn í 18 ár sé fólki að fjölga í bænum í stað þess að fækka, en fleiri vilji flytja en geti. „Þótt fólk vilji koma og stöður séu auglýstar, þá hefur það meðal annars strandað á húsnæðisleysi. Þetta er farið að hamla þróun kaupstaðarins. Þó nokkur hús standa auð yfir veturinn og nýtast ekki fjölskyldufólki á meðan. Fjölgunin í bænum hefði verið meiri ef það væri til húsnæði.“

Hildur Þórisdóttir leiðir Seyðisfjarðarlistann og hún segir húsnæðismálin í ólestri og vandinn ærinn. „Það er ótækt að fólk sem vill flytja í bæinn verði frá að hverfa vegna ástandsins. Til að leysa brýnasta vandann þarf að kanna hvort ekki sé hægt að nýta betur húsnæði bæjarins en líka það sem stendur tómt stóran hluta ársins. Við viljum ýta undir húsbyggingar meðal annars með því að fella niður gjöld. Þá þarf að fjölga byggingarlóðum.“

Vilhjálmur Jónsson bæjarstjóri og efsti maður B-lista Framsóknarfélags Seyðisfjarðar og frjálslyndra segir að lokið hafi verið við gerð húsnæðisáætlunar. „Við ætlum að vinna að lausn á þessu bæði í samvinnu við Íbúðalánasjóð og með öðrum leiðum sem að gagni geta komið. Ætlunin er að gera þetta hratt og vel. Núverandi húsakostur hýsti upp undir 1.100 manns á níunda áratugnum en nú búa einfaldlega færri á hverju heimili auk þess sem töluvert er um útleigu eins og airbnb.“

Norræna, Smyril Line
 Mynd: Malín Brand

Bæjarstjórinn segir að atvinnumálin séu stöðugt viðfangsefni. „Atvinnulífið er nokkuð fjölbreytt miðað við staði af þessari stærðargráðu. Það hefur breyst töluvert mikið frá aldamótum þegar útgerð stóð með hvað mestum blóma hér. Starfsemi sjávarútvegsfyrirtækjanna er eftir sem áður mjög þýðingarmikil fyrir bæjarfélagið en ferðaþjónusta hefur vaxið mjög hratt sem og hafnarstarfsemi.“ Hann segir sextíu skemmtiferðaskip væntanleg til Seyðisfjarðar í sumar og svo kemur Norræna vikulega.

Fjarðarheiðargöng á fjárlög

Allir listar eru sammála um nauðsyn jarðganga yfir á Hérað. Þeim myndi væntanlega fylgja fleira en bara öruggari samgöngur. „Við horfum til þess að geta fengið bæði heitt og kalt vatn ofan af Héraði í gegnum göngin,“ segir Vilhjálmur. „Fjarvarmaveita í bænum er að þrofum komin og RARIK hefur sagst ætla að hætta starfsemi hennar eftir tvö ár. Það eru nú samt þokkalegar líkur á að hægt sé að laga dreifikerfið þar til göngin verða að veruleika. Okkur dugar ekki að þau séu bara í samgönguáætlun heldur þurfa þau að komast á fjárlög.“

Mynd með færslu
 Mynd: Rúnar Snær Reynisson - RÚV

Það er einhugur hjá öllum framboðum að fara undir Fjarðarheiði en ekki aðra leið. Sú stefna er skýr og hið versta mál að fá göngin ekki á fjárlög,“ segir Elvar Snær.

Hildur segir að barist verði áfram af alefli fyrir bættum samgöngum en það sé ekki eina áskorunin. „Undanfarin átta ár hefur þurft að glíma við erfiðan fjárhag sem hefur komið niður á innviðum eins og viðhaldi á húsnæði bæjarins og götum og gangstéttum. Viðhalds- og viðgerðarþörf nemur mörg hundruð milljónum króna.“

Hún segir að Seyðisfjarðarlistinn vilji auka lýðræði og hafa meiri samvinnu við bæjarbúa en hingað til hafi tíðkast. „Ég vil meina að stjórnsýslan sé flókin og hæg og því viljum við breyta. Með því að leggja niður þriggja manna bæjarráð eykst lýðræðið strax því þá taka allir bæjarfulltrúarnir sjö ákvarðanir. Nefndir bæjarins hafa haft lítil völd og á köflum aðeins til málamynda. Gerum þær verkefna- og árangursdrifnar og fáum þannig meira út úr starfinu,“ segir Hildur.

Björn Friðrik Brynjólfsson
Fréttastofa RÚV