Prince lést í apríl í fyrra eftir ofneyslu á fentanýl, morfínskyldu verkjalyfi. Hann hafði ekki gert erfðaskrá og átti ekki börn svo vitað væri. Síðan þá hafa 45 manns gefið sig fram og gert kröfur í dánarbú söngvarans, þar á meðal fangi í Colorado sem sagðist vera sonur hans. Sú reyndist ekki raunin.
Dómari vísaði í fyrra frá kröfu 29 manna í dánarbúið og skipaði öllum öðrum sem töldu sig réttmæta erfingja Prince að gangast undir lífsýnapróf. Nú er niðurstaða komin í málið og Tyka, systir Prince og fimm hálfsystkini hans erfa eigur hans sem metnar eru á um 200 milljónir dala, andvirði rúmlega 20 milljarða íslenskra króna. Dómarinn sem kvað upp úrskurðinn sagði að þeim sem hefði verið synjað um erfðarétt, gæfist tími til að áfrýja úrskurðinum og því þurfa systkini Prince að bíða í eitt ár áður en þau geta farið að ráðstafa auðævunum.
Stjórnendur dánarbúsins hafa gert samninga um að tónlist Prince verði nú hægt að nálgast í gegnum tónlistarveitur, en hann sjálfur lagði ávallt bann við því. Þá stendur til að gefa út tvær plötur með áður óútgefnu efni listamannsins og tvær tónleikamyndir.