Sex skip Gamla sáttmála hámark en ekki lágmark

01.04.2018 - 14:12
Dr. Helgi Þorláksson, prófessor emeritus í sagnfræði við Háskóla Íslands
 Mynd: Háskóli Íslands
Ákvæði í Gamla sáttmála frá 1262 um sex skip í siglingum milli Noregs og Íslands voru ekki lágmarkskrafa heldur hámark, segir prófessor í sagnfræði. Með þessu hafi höfðingjar viljað tryggja sér og kirkjum næg aðföng án þess að auka verslun um of.

Fjallað er um utanríkisverslunarsögu Íslendinga frá landnámi fram á okkar dag í þáttunum Fjöregg þjóðar á Rás 1 í dag og á morgun. Þar er byggt á riti sex fræðimanna, Líftaug landsins, sem kom út í fyrra.

Helgi Þorláksson prófessor fjallar um utanríkisverslun fyrstu aldir Íslandsbyggðar og segir að hún hafi lengi verið lítil. Þetta verði að hafa í huga þegar skýra eigi ákvæði Gamla sáttmála um sex skip í siglingum milli Noregs og Íslands. Þetta hafi ekki verið krafa örvæntingarfullrar þjóðar um aðflutninga heldur eins konar hámark. Stórgoðar hafi viljað ráða verslun og takmarka fjölda aðkomumanna.

Mynd með færslu
 Mynd: . - ..

Verslun fyrir höfðingja og kirkjur

Helgi vísar í Sturlungasögu um þarfir höfðingja. „Þar kemur fram hvernig höfðingjar við lok tólftu aldar, um 1200, reyna að verða sér úti um munaðarvarning til að geta skorið sig úr og borist dálítið á. Það er annað atriðið. Hitt atriðið er svo að það þurfti kirkjuvarning. Það var bráðnauðsynlegt. Annað var kannski ekki mjög brýnt. Við tölum um að mjöl, léreft, viður, vax og tjara hafi verið flutt til landsins. En það mátti komast af án meira og minna þessa alls.“

Helgi segir að samkvæmt þessu sé skiljanlegt að mönnum hafi dugað sex skip. En því gæti fylgt vandi ef skipin yrðu of mörg. „Norðmenn voru búnir að taka verslunina algjörlega í sínar hendur og komu kannski á þremur skipum að Gásum í Eyjafirði. Það voru kannski 60 Norðmenn í hverju skipi. Það voru 180 Norðmenn sem komu þarna, frískir menn og vel vopnaðir og létu ekki bjóða sér hvað sem var. Það var viss ógnun af svona hópi.“ Því hafi ráðamönnum þótt rétt að takmarka þennan hóp og tryggja aðeins verslun sem nægði höfðingjum og kirkju.

Ímynd þjóðveldisins fjarri raunveruleikanum

Helgi segir í þættinum að útbreiddar skoðanir um þjóðveldið, þar sem fyrstu aldir Íslandsbyggðar séu baðaðar í ljóma og landið óspillt, séu víðsfjarri raunveruleikanum. Þær séu að hluta afleiðing af þjóðernisvakningu á nítjándu öld. Þá hafi menn farið að leita sér fyrirmynd. „Þeir finna yfirleitt fyrirmyndir og hvatningu í fortíðinni. Þær uppgötva gullaldir. Þetta er margföld reynsla margra þjóða. Þetta er ekki séríslenskt fyrirbæri. Menn bara leita að gullöldinni og finna hana.“ Hér hafi verið hæg heimatökin að leita í Íslendingasögur þar sem virðist sem Íslendingar skari fram úr og það hafi verið lítið mál fyrir þá að fara úr landi, banka upp á hjá konungum og geta sér frægðar.

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV

Því tengt sé hugmyndin um að Íslendingar hafi átt skip og það meðal annars birst á ný í áherslu Íslendinga að eignast eigin flutningaskip í sjálfstæðisbaráttunni. Það sé hinsvegar ekki trúlegt að Íslendingar hafi átt mörg skip eða átt þau lengi eftir landnám. Þannig hafi fyrir löngu verið bent á að líklega hafi skipafloti landnámsmanna ekki enst lengi, jafnvel ekki út tíundu öldina. Helgi segir að lítið sé vitað um skipaflotann, bæði hvernig skip landnámsmenn hafi átt og hversu lengi.

Íslendingar stunduðu aðallega sjálfsþurftarbúskap fyrstu aldir byggðar hér á landi, sagði Helgi. Utanríkisverslunar var aðallega þörf til að uppfylla þarfir kirkju og stórgoða. Þetta segir Helgi að hafi ekki breyst fyrr en á 16. öld þegar menn fóru að búast við því að fá reglulega varning erlendis frá. 

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV