Sex nýjar plötur sem þú ættir að kynna þér

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV

Sex nýjar plötur sem þú ættir að kynna þér

04.04.2019 - 10:43
Lovísa Rut rennir yfir þær plötur sem eru í raðhlustun hjá henni þessa dagana og hún hvetur ykkur til að kynnast betur.

Outer Peace - Toro y Moi

Plata þessi er sú sjötta sem tónlistarmaðurinn Chaz Bear, sem gengur undir listamannsnafninu Toro y Moi, gefur út. Hann er lagahöfundur, söngvari og upptökustjóri frá Suður-Karólínu. Hann er kannski þekktastur fyrir lögin So Many Details og Blessa. Platan kom út í janúar en lögin Freelance og Ordinary Pleasure komu út aðeins fyrr. Tónlistina mætti í grunninn flokka undir chillwave hreyfinguna sem komst á flug á árunum 2010-2011 en Toro y Moi fer engu að síður um víðan völl hér í Outer Peace. Bear er einstaklega fær í „samplagerð“, blandar saman indírokki og diskói, en í þessari plötu er áheyrilega meira hús, þykkari bassi og djarfara trap. Djúp melankólía í annars góðu húspartýi.

Þetta er platan sem þú myndir læra við eða rúlla þegar þú ert með lítið teiti. Ef þú fílar Daft Punk, Blood Orange eða Tame Impala ættirðu að skoða Toro y Moi.

When I Get Home - Solange

Solange eða Solange Piaget Knowles var að gefa út sína fjórðu plötu. Hún er líklega þekktust fyrir lögin Losing You og Don’t Touch My Hair. Solange er lagahöfundur, söng- og leikkona og lamdi einu sinni mág sinn, Jay Z í lyftu. Söngkonan er frá Houston og hún minnir hlustandann á það með þessari plötu sem kom út í mars og fékk góð viðbrögð. Platan When I Get Home er draumkennd og djössuð inn á milli í annars góðu R&B sálarflæði. Lögin eru á mikilli hreyfingu enda er þetta í kjarnann alger hughrifatónlist, lögin eru stutt en flæðandi og stundum gerir hlustandinn sér ekki grein fyrir skiptingunni. Svo virðist sem söngkonan sé að leita eitthvert annað, platan hljómar leitandi og spennandi í senn.  

Þetta er platan sem þú ættir að hlusta á með kaffinu á morgnana eða þegar þér leiðist. Ef þú fílar Erykuh Badu, Frank Ocean eða Janelle Monáe ættirðu að skoða Solange.

MMMM - Munstur

Listamennirnir Kristinn Arnar Sigurðsson og Atli Arnarsson mynda fjöllistateymið Munstur. Þeir gáfu út plötuna MMMM í janúar á þessu ári. Þeir eru nýkomnir inn í tónlistarsenuna þó það hljómi ekki þannig. Munstur vakti athygli fyrir fjölbreytt tónlistarmyndbönd sem voru til þess fallin að skapa stemningu og bjaga hversdagsleikann en platan var gefin út á stafrænu formi. Þeir eru að vinna með mjög nýstárlegar hljóðbrellur, hughrif og spennandi hljómagang í indíformi. Þetta er vel unnin raftónlist í góðu jafnvægi við hljóðfæraleik. En þeir eru miklu meira en tónlistarmenn: „Við erum að reyna að búa til eins konar heildarheim og leika okkur með hversdagsleikann og reyna að bjaga hann, gera hann aðeins öðruvísi eða skrítinn eða skemmtilegan.”

Þetta er platan sem þú hlustar á þegar þú ert að skissa eða keyra austur. Ef þú fílar Berndsen, Alt-J eða Beach House þarftu að kynna þér Munstur.

El Mal Querer - Rosalía  

Spænska poppstjarnan Rosalía birtist skyndilega heiminum með þessari plötu, El Mal Querer í nóvember í fyrra. Rosalía Vila Tobella fæddist í Sant Esteve Sesrovires á Spáni, hún er söngkona og lagahöfundur, líklega þekktust fyrir að færa nútímalega sígaunatónlist á annað stig. Hún gaf út plötuna Los Ángeles árið 2017 en hún komst ekki á vinsældalista hérlendis. Platan El Mal Querer er marglaga og áhugaverð. „Flamenco” áhrifin eru áþreifanleg í takt við óperu sem er poppblönduð í senn. En Rosalía er sprenglærður söngvari sem heldur fast í hefðir menningar sinnar, skoðar sig um og leyfir hip-hoppinu að taka þátt, auk þess sem hún bætir við þungum syntha- og bassalínum í annars þjóðlega tónlist.

Þetta er platan sem þú hlustar á þegar þú ert óþolinmóður eða ætlar að skúra stofuna. Ef þú fílar Shakiru, Camarón de la Isla eða J Balvin þarftu að kynna þér Rosalíu.

Í Glimmerheimi - Gróa

Nýtt íslenskt stelpupönk. Hljómsveitin Gróa samanstendur af Fríðu Björgu Pétursdóttur og systrunum Hrafnhildi og Karólínu Einarsdætrum. Hér eru komnar Grýlur aldamótunganna (e. millennials). Þær hafa gefið út eina plötu sem ber einfaldlega heitið Gróa og eru kannski þekktastar fyrir lagið Ocean Is Amber. Gróa er hluti af listahreyfingunni Post-dreifingu, þetta er heiðarlegt sjálflært bílskúrsband sem spilar léttpönkaða og beitta tónlist með þéttum trommuslögum og skemmtilegum textum sem eru sungnir með skrækróma röddu.

Þetta er platan sem þú hlustar á þegar þú ert kvíðin/n eða að gera þig ferðbúna/inn fyrir partý. Ef þú fílar Hórmóna, Grýlurnar eða The Slits þarftu að kynna þér Gróu.

When We All Fall Asleep, Where Do We Go? - Billie Eilish

Billie Eilish, 17 ára söngkona frá Los Angeles er að sigra heiminn með þessari fyrstu breiðskífu sinni. Hún komst á kortið með lögunum Ocean Eyes og Lovely, er nú er platan hennar When We All Fall Asleep, Where Do We Go? öll á komin á Global top 50 listann á Spotify. Eilish er opin með að vilja annars ekki láta skilgreina sig þ.e. tónlistina sína. Hún þolir ekki þessa flokkastemningu, sem er mjög áheyrilegt við hlustun plötunnar, þar sem hún fer um víðan völl. Platan er melankólískt popp með beittum snúningum, þungum bassalínum og alls kyns hljóðbrellum. Eilish er fær lagahöfundur og textar hennar beittir, hún er að vinna með þungan efnivið, notar tungumál aldamótunganna með þroskuðum hætti.

Þetta er platan sem þú hlustar á þegar þú ert lítil/l í þér eða að sápa þig í sturtunni. Ef þú fílar Lorde, Tyler the Creator eða Lana Del Rey þá skaltu kynna þér Billie Eilish.