Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Sex ára aðdragandi að mynd um flókin mál

Mynd: RÚV / RÚV

Sex ára aðdragandi að mynd um flókin mál

23.03.2018 - 13:12

Höfundar

Hvaða áhrif hefur það á venjulega fjölskyldu þegar sonur á unglingsaldri er sakaður um kynferðisbrot? Þessi eldfima spurning er undir í Mannasiðum, sjónvarpsmynd í tveimur hlutum sem verður sýnd á RÚV á páskadag og annan í páskum.

Mannasiðir er samstarfsverkefni RÚV og framleiðslufyrirtækisins Glassriver. María Reyndal leikstýrir og skrifar handrit myndarinnar. 

„Hún er um strák sem er í menntaskóla og er ásakaður um alvarlegan glæp. Við fylgjumst með honum fjölskyldu hans, krökkunum í skólanum, vinnufélögum foreldra hans. Þannig að við förum inn í drama þessarar fjölskyldu við þennan atburð.“ 

Efni myndarinnar kallast sterkt á við #Metoo byltinguna en á sér þó lengri aðdraganda.

„Ég byrjaði að skrifa leikrit um þetta efni 2012 og svo gerði ég útvarpsverk síðasta vor og nú er þetta orðið að sjónvarpsmynd. Metoo byltingin kemur inn í þetta og umræðuefni sem eru mjög mikið í samfélaginu.“ 

Flókin umræða sem passar ekki í afmarkað box 

María segir að umræðan um kynferðisbrot eigi til að verða svarthvít.

„Af því að við viljum alltaf skilja hana og reyna að setja hana í afmörkuð box sem við ráðum við en vandamálið við þessi málefni er að þau eru gríðarlega flókin og erfið. Samfélagið, eins og hefur komið fram undanfarið, stendur frammi fyrir því að ráða ekki alveg við þetta. Við erum að reyna að finna út úr þessu, saman sem samfélag.“

Fjallað var um Mannasiði í Menningunni. Horfa má á innslagið hér að ofan.