Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Setning fullveldishátíðar

Mynd:  / 
Bein útsending frá setningu fullveldishátíðar við Stjórnarráðshúsið. Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, setur hátíðina og haldin verða stutt ávörp í bland við tónlistarflutning.

Athöfnin hefst klukkan 13:00 og stendur í um 30 mínútur.

Ungmennaráð Heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna tekur virkan þátt í athöfninni og munu Kristbjörg Mekkín Helgadóttir og Mathias Ölvisson, fulltrúar ráðsins, ávarpa viðstadda. Þá mun Jelena Ćirić tónlistarkona flytja ávarp.

Söngfólk ásamt blásarasveit annast tónlistarflutning við athöfnina fyrir utan Stjórnarráðið. Blásarasveitin er skipuð reyndum tónlistarmönnum í  bland við blásara úr Skólahljómsveit Austurbæjar, Skólahljómsveit Árbæjar og Breiðholts og Skólahljómsveit Kópavogs. Tónlistarstjóri er Samúel Jón Samúelsson og frumflytur blásarasveitin lúðrakall eftir hann við setninguna. Tónlistarteymi viðburðarins skipa auk Samúels Jóns, þau Ástbjörg Rut Jónsdóttir, Hildigunnur Einarsdóttir, Hilmar Örn Agnarsson og Nanna Hlíf Ingvadóttir. Kórarnir sem taka þátt eru Hinsegin kórinn, Skólakór Kársness, Kvennakórinn Katla, Múltíkúltíkórinn, Söngfjelagið, Karlakór Kjalnesinga, Ekkó kórinn, Léttsveitin, ásamt tveimur söngvurum, sem syngja á íslensku táknmáli, þeim Kolbrúnu Völkudóttur og Uldis Ozols.

Sungin verða lögin:  Hver á sér fegra föðurland eftir Emil Thoroddsen við ljóð eftir Huldu 
Draumalandið eftir Sigfús Einarsson við ljóð Jóns Trausta í útsetningu Samúels Jóns Samúelssonar
Víkivaki eftir Valgeir Guðjónsson við ljóð Jóhannesar úr Kötlum.

Meðal gesta við setningarathöfnina verða Guðni Th. Jóhannesson forseti Íslands, Margrét II. Danadrottning og Lars Løkke Rasmussen forsætisráðherra Dana.

Ávörp verða túlkuð á íslenskt táknmál.

Rauði krossinn býður upp á heitt kakó á Lækjartorgi í tilefni dagsins.