Setja farþega í land á friðlýstum svæðum

09.05.2018 - 19:14
Farþegar á minni skemmtiferðaskipum sem sigla umhverfis Ísland, eru sendir í leyfisleysi í land á viðkvæmum stöðum eins og friðlandinu á Hornströndum. Engin lög eða reglur virðast gilda um slíkt athæfi og stjórnvöld hafa brugðist seint við, þótt staðfest dæmi séu um viðkomur af þessu tagi. Mikil aukning hefur orðið í komum leiðangurskipa undanfarin ár.

Sprenging hefur orðið í komum svokallaðra leiðangursskipa til Íslands. Þetta eru frekar lítil skip, taka þetta 150-400 farþega, og ferðirnar eru gjarnan markaðssettar sem fugla- og náttúruskoðun.

Árið 2012 var lagt upp í 7 svona ferðir í kringum landið, 50 ferðir í fyrra, og þær verða um 60 í ár. Leiðangurskipin stoppa í fleiri höfnum og í minni bæjum en risaskipin, en einnig utan hafna. Farþegum er gjarnan boðið að fara á gúmmíbátum að landi, og jafnvel í land, á stöðum þar sem náttúran er viðkvæm.

Viðkomur á varpsvæði auglýstar opinskátt

Þannig er það til dæmis auglýst á heimasíðu Hurtigruten skipafélagsins, sem býður svona ferðir á varptíma, í maí og júní. Þá stendur til að fara í land við Látrabjarg, sem er í friðlýsingarferli, og líka við Hornbjarg, sem er í friðlandinu á Hornströndum. Við Látrabjarg er farþegum boðið að koma í land og ganga upp að bjarginu, þar sem milljónir fugla er að finna. Við Hornbjarg á að reyna að fara í land á litlum bátum, segir á heimasíðu Hurtigruten.

Guðmundur Kjartansson, forstjóri Iceland Pro Cruises, sem rekur leiðangursskipið Ocean Diamond, segist ekki líða svona ferðamáta. „Okkar afstaða er mjög skýr. Við erum með það á hreinu að við förum ekki á staði þar sem við vitum að náttúran má ekki við því. Þá erum við að tala um vernduð svæði eða svæði í einkaeign,“ segir Guðmundur.

Landtaka í leyfisleysi

Guðmundur segir að innan þessa geira ferðamennskunnar séu staðfest dæmi um landtöku í leyfisleysi. „Já, við vitum um ákveðin dæmi, sem er náttúrulega alls ekki nógu gott. En síðan óttast maður að það séu miklu fleiri dæmi sem við vitum ekki um, þar sem menn hafa verið að fara á afskekkta staði og farið í land án þess að nokkur viti um það.“

Stjórnvöld bregðast seint við

Ferðir inn í friðlandið á Ströndum fyrir miðjan júní þarf að tilkynna til Umhverfisstofnunar. Engar slíkar beiðnir hafa borist frá Hurtigruten og samkvæmt upplýsingum fréttastofu hafa landeigendur við Hornbjarg ekki gefið leyfi. Stjórnvöld virðast hins vegar ekki hafa brugðist af krafti við fjölgun þessara ferða hér við land.

Aðeins vika er frá því að óformlegur starfshópur fulltrúa frá Samgöngustofu, Umhverfisstofnun og Landhelgisgæslunni var settur saman, til að fjalla um viðkomur skemmtiferðaskipa en tvö ár eru síðan umboðsaðilar leiðangursskipa fóru að kalla eftir leiðbeiningum og reglum hvað varðar viðkvæm svæði og viðkomur þar. Nú er Umhverfisstofnun að vinna að verndaráætlun fyrir Hornstrandir þar sem svona heimsóknir eru teknar fyrir. Þessar reglur á að kynna í sumar. 

„Þetta er í rauninni bara útvíkkun á þessu ferðakonsepti sem hefur verið í gangi og ég held að þetta sé eitthvað sem kemur til með að vera hérna í framtíðinni,“ segir Guðmundur. „Þetta mun aukast, og ég held að það sé líka rétt að stjórnvöld fari að skoða þetta miklu nánar; kannski ekki að setja þetta í nein höft, en hafa ákveðnar reglur eða regluverk í kringum þetta.“

Björn Malmquist
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi