Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Setja af stað neyðaráætlun vegna kuldans

01.02.2019 - 18:25
Mynd með færslu
 Mynd: rúv
Reykjavíkurborg hefur ákveðið að setja af stað neyðaráætlun vegna kulda sem spáð er um helgina. Eins og greint hefur verið frá á RÚV.is verða Konukot og Gistiskýlið, athvarf heimilislausra í borginni, opin lengur en vanalega. Heimilislausir geta þess vegna haft skjól allan daginn.

Veðurstofa Íslands spáir allt að 11 stiga frosti í nótt. Þess vegna var ákveðið að fjölga plássum í neyðarskýlunum. Fleira starfsfólk hefur verið kallað til og þjónusta Öryggismiðstöðvarinnar verður keypt eftir því sem þörf krefur. Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu ætlar að veita stuðning ef það þarf.

Samkvæmt upplýsingum frá Reykjavíkurborg hefur vettvangsferðum á þekkta gististaði heimilislausra verið fjölgað. Sjálfboðaliðar í Frú Ragnheiði, hjúkrunarmóttaka og nálaskiptiþjónusta Rauða krossins, hafa fengið leiðbeiningar um hvernig skal bregðast við ef heimilislausir einstaklingar í vanda leita til þeirra.

Þá hafa forsvarsmenn tjaldsvæðisins í Laugardal og á bráðamóttökum Landspítalans verið upplýst um stöðuna ef einstaklingar í erfiðri stöðu leita þangað.